Við brugðum undir okkur betri fætinum á öðrum degi jóla og fórum í húsbílaferð fram yfir nýárið í S-Þýskalandi og Austurríki. Við flugum til Frankfurt og þar beið okkar Kjartan Steindórsson með húsbíl, en hann og eiginkona hans, Elísa Jóhannsdóttir, búa skammt frá Schwäbisch Hall, eiga þar og reka húsbíla fyrir ferðafólk frá september fram í maí.
Þjónustan er því eins persónuleg og hún getur orðið. Þau Kjartan og Elísa þekkja ferðakosti í allar áttir eftir að hafa búið þar í 20 ár. Við settumst því niður með þeim og lögðum niður fyrir okkur ferðaplan.
Vissulega er hægt að gera það heiman frá Íslandi með því að gúggla tiltekið svæði og Camping, en alltaf er gott að hafa þaulkunnuga með í ráðum. Þar að auki er hægt að ná í þau hvenær sem er á ferðalaginu, ef einhverjar spurningar vakna og gerðum við það óspart.
Farkosturinn sem við fengum var glæsilegur Ford með húsi aftan á, en þar er á ótrúlega hugvitssamlegan hátt komið fyrir öllu sem þarf í daglegu lífi, interneti, skápum, klósetti, hjónarúmi, eldhúskrók sem hægt er að leggja niður og auka þannig gistipláss, gasgrilli og útihúsgögnum, eldhúsi með gasi, vask og ísskáp og m.a.s. helstu kryddum.
Á öllum tjaldstæðunum sem við prófuðum voru veitingastaðir sem hægt var að fá þjóðlega góða rétti. Hægelduð svínasteik með steiktu krydduðu hvítkáli smakkaðist afar vel á tjaldstæðinu í Füssen.
Það kom okkur á óvart að „tjaldstæði“ í Mið-Evrópu er ansi mikið meira en tjaldstæði. Þar er dásamleg þrifa-aðstaða, þvottavélar, leirtaus-vaskar, að ógleymdum frábærum sturtuklefum með öllum græjum. Veitingahús og búðir með helstu nauðsynjum.
Á fyrsta svæðinu sem við stoppuðum á, við Hopfensee hjá bænum Füssen, var hægt að fara í sund, spa, skauta, minigolf, borðtennis, billiard o.s.frv. Þetta er frábær kostur fyrir barnafólk og þá sem vilja hafa það náðugt utan við stórborgarskarkalann.
Aftur á móti er víða boðið upp á fríar sætaferðir í miðborgina, ef svæðið er nálægt stórborg. Þegar komið var í austurrísku Alpana, lögðum við hjá Innsbruck og renndum okkur svo á milli í rútu, en værum við seint á ferðinni, eins og gengur með stráka á þessum aldri, tókum við leigubíl og það var ævintýri út af fyrir sig. Borgin er ótrúlega falleg og notaleg, en Alparnir eru í heild undraveröld að vetri til með öll sín hlýlegu þorp og skíðasvæði.
Það var þó ekki síst ævintýri að vakna á nýársdagsmorgun og líta upp í fjöllin, sem voru umvafin frostþoku í sólskini og himinháu grenitrén sem stóðu eins og risastór prúðbúinn karlakór með hvítar húfur og óskaði okkur gleðilegs árs.
Það má sannarlega mæla með þessum ferðakosti, ef maður vill vera sinn eigin herra, en jafnframt með öll helstu þægindi við hendina. Sjá nánar á heimasíðunni ELKJA-Adventures
Vapiano – nýstárlegt kerfi, þar sem maður getur farið á nokkrar stöðvar (pizzustöð, pastastöð, eftirréttastöð o.s.frv.) og pöntunin er sett inn á kort sem maður fær í hendur. Á hverri stöð bætist við upphæðina á kortið og maður sér hver hún er orðin þegar kortið er lagt á skynjara. Allt er búið til frá grunni handa manni, en mjög fljótlegt.
Kosturinn við ferðalög eins og þetta er að fyrripart dags er hægt er þræða ósnortin sveitaþorp og seinnipartinn ganga um stræti stórborgar. Þetta gerðum við síðasta daginn er við skoðuðum Frankfurt og borðuðum einstaklega góðan mat á Lohninger veitingahúsinu. Satt best að segja varð ég orðlaus yfir matnum og framsetningu hans. Myndirnar tala sínu máli