Kaffiveisla hjá kvenfélögunum í Eyjafjarðarsveit
Kvenfélögin Hjálpin, Iðunn, Aldan/Voröld í Eyjafjarðarsveit og Hlíf og Baldursbrá á Akureyri sameinuðust um veglega kaffiveislu í Laugarborg á konudaginn – þær buðu sjálfum sér í kaffi og skemmtun í svokölluðu Pálínuboði. Við Bergþór vorum með tölu, það var farið í leik og svo var sungið saman milli þess sem við gæddum okkur á gómsætum kaffiveitingunum.
.
— KVENFÉLÖG — KAFFIHLAÐBORÐ — AKUREYRI —
.
Starf kvenfélaga á landinu er gríðarlega mikilvægt á hverjum stað, starf sem fer ekki alltaf hátt. Konurnar leggja dag við nótt í fjáröflun og fleira enda láta þær sig varða ýmis verkefni lítil og stór. Það er ekki ofsögum sagt að kvenfélögin séu á allan hátt fyrirmyndar félagskapur. Konur þessa lands ættu að gefa sér og öðrum konum klapp á bakið fyrir vel unnin störf svo áratugum skiptir.
Kornflexterta
4-5 eggjahvítur
2 b flórsykur
1 b kókosmjöl
4 b kornflex
Stífþeytið eggjahvítur og flórsykur. Bætið við kókosmjöli og kornflexi.
Bakið í tveimur kringlóttum formum – á 130°C í um 3 klst
á milli
1/2 l rjómi
1/2 ds perur
Stífþeytið rjómann, saxið perurnar og bætið þeim saman við.
Krem ofan á kökuna
4-5 eggjarauður
60 g flórsykur
100 g suðusúkkulaði – brætt í vatnsbaði
50 g lint smjörlíki eða smjör
Hrærið saman smjörlíki og flórsykri. Bætið eggjarauðum saman við og þeytið áfram. Að síðustu fer súkkulaðið saman við.
Setjið annan botninn á tertudisk. Dreifið úr perurjómanum yfir og setjið hinn botninn ofan á. Dreifið úr súkkulaðikreminu yfir og skreytið með jarðarberjum
Marengsterta
Marengsbotnar:
6 dl eggjahvítur
2 ½ dl sykur
½ dl púðusykur
3 bollar Cornflakex
Aðferð: Stífþeytið eggjahvítur, sykur og púðursykur. Bætið við kornflexi í lokin. Setjið á tvær plötur klæddar bökunarpappír, tvo jafnstóra hringi. Bakið á 130° í um 2 ½ klst. Látið kólna.
Súkkulaði:
200 g suðusúkkulaði
35 g smjör
2 eggjarauður
Rjómi
Aðferð: Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti á vægum hita takið af hellunni og látið kólna aðeins og setjið svo eggjarauður útí. Hrærið þar til allt er orðið vel blandað saman. Þynnið að vild með rjóma. ( misjafnt hvernig hver og einn vill hafa súkkulaðið).
Fylling:
7 dl rjómi
2 meðalstór epli
1 pk af súkkulaðihjúpuðu Oreokexi – saxað
10 stk jarðarber (meðalstór)
Aðferð:
Stífþeytið rjómann. saxið epli, jarðarber og Oreokex og bætið saman við. Setjið annann botninn á tertudisk,setjið súkkulaðið yfir þann botn svo rjómafyllinguna þar á og loks hinn botninn ofan á. Dreyfið súkkulaðinu yfir og skreytið með bláberjum, jarðarberjum.
.
— KVENFÉLÖG — KAFFIHLAÐBORÐ — AKUREYRI —
.