Veisluborð hjá Guðrúnu Hörpu og Erlendi
Gleðigjafarnir og dugnaðarforkarnir Guðrún Harpa Bjarnadóttir og Erlendur Pálsson buðu nokkrum góðum vinum í matarveislu. Matarilminn lagði út á hlað þegar okkur bar að garði og við tók eftirminnilegt kvöld með góðum gestum sem saman snæddu tómatsúpu í forrétt, lambakjöt marineraði Amaretto líkjör og himnesk súkkulaðitertu í eftirrétt. Auk þeirra hjóna stóð Fannar tengdasonur þeirra vaktina í eldhúsinu og lagði þar sitt af mörkum og rúmlega það.
— GUÐRÚN HARPA/ERLENDUR – LAMB —
.
Með tómatsúpunni var súrdeigsbrauðhleifur sem var, satt best að segja, aðeins of góður því gestirnir voru sammála um að erfitt væri að hemja sig.
Heimagert súrdeigsbrauð með kúmen og rósmarín (uppskrift fyrir tvö meðalstór brauð)
1200 g hveiti
750 ml vatn
350 g súrdeigsgrunnur
35 g sjávarsalt
1 teskeið rósmarín
1 teskeið kúmenfræ
Blandið hveiti, vatni og súrdeigsgrunni saman í skál þannig að allt hveitið blandist vel.
Látið standa með röku viskastykki ofan á skálinni í 30 mín til 1 klst.
Þetta ferli kallast autolyse og kemur hefuninni af stað og auðveldar hnoðunina.
Takið deigið úr skálinni, hnoðið saltið og kryddin í deigið og hnoðið áfram í u.þ.b. 10-15 mín.
Deigið ætti að vera frekar klístrað, en reynið að ná því í kúlu og setjið í hreina skál.
Leggið rakt viskastykki yfir og látið hefast í 3-4 tíma eða þangað til deigið hefur stækkað um tæplega helming.
Takið deigið varlega úr skálinni og mótið það í kúlu (gott að horfa á myndbönd á youtube um sourdough bread shaping).
Setjið deigið á hvolf í hefunarkörfu eða skál með viskastykki ofan í með hveiti svo að deigið festist ekki.
Látið hefast í kæli yfir nótt eða við herbergishita í u.þ.b. 4 klst.
Stillið ofninn á 250° og látið pottinn sem baka skal í hitna með ofninum.
Takið deigið varlega úr hefunarkörfunni og setjið í heitan pottinn.
Gott er að skera með rakvélarblaði ofan á deigið, það er gert til að hleypa lofti úr deiginu þegar það bakast, en einnig fyrir útlitið.
Bakið í pottinum með loki á við 250°C í 20 mínútur. Takið síðan lokið af pottinum og bakið á 220°C í u.þ.b. 5-10 mín., eða þangað til brauðið er gyllt og örlítið byrjað að brenna.
Látið standa í a.m.k. 45 mín. áður en skorið er í brauðið.
Tómatsúpa. Tómatar eru ekki allir eins á bragðið og þess vegna gefa þeir misjafnt bragð
Tómatsúpa fyrir 8 manns í forrétt.
4 ds San Marzano tómatar
1 lítri kjúklingasoð/grænmetissoð
250 ml rjómi
2 msk smjör
1 laukur
3 hvítlauksgeirar
1 vorlaukur
handfylli basilikum
salt og pipar
Saxið lauk og hvítlauk og svitið vel í potti með ólífuolíu og smjöri á lágum hita þangað til laukurinn er orðinn mjúkur og gegnsær (u.þ.b. 15 mín.).
Bætið tómötum út í sjóðið þar til þeir fara að detta í sundur (u.þ.b. 15 mín.).
Bætið soðinu út í og látið malla í hálftíma. Bætið svo rjóma út í og notið töfrasprota til að blanda öllu saman.
Salt og pipar eftir smekk. Skreytið með niðurskornu basilikum og vorlauk.
Fylltar sætkartöflur með jógúrtsalati fyrir 8 manns(meðlæti).
4 miðlungsstórar sætar kartöflur
300 g grísk jógúrt
2 granatepli
1 fetakubbur
2 tómatar
1 hvítlaukur
2 shallot laukar
2 vorlaukar
1 matskeið balsamik síróp
handfylli spínat
handfylli minta
salt og pipar
Hitið ofninn á 180°. Stingið lítil göt á kartöflurnar með gafli. Smyrjið kartöflurnar með ólífuolíu og salti.
Bakið í rúmlega klukkutíma, eða þangað til hægt er að stinga hnífi auðveldlega í gegnum kartöfluna. Látið kólna í um hálftíma.
Á meðan kartöflurnar bakast:
Skerið tómata, hvítlauk og shallot lauk smátt og blandið út í jógúrtina. Skerið granateplið í tvennt og notið t.d sleif til að slá ofan á það til að ná fræjunum úr, blandið í jógúrtina ásamt spínati og balsamiksírópi.
Hrærið öllu vel saman ásamt salt og pipar eftir smekk.
Skerið kartöflurnar langsum í tvennt og setjið svolítið salat ofan á hverja kartöflu. Skreytið með vorlauki og mintu.
Noisette-smjör
Hitið 250 g af smjöri í potti við miðlungshita. Leyfið því að sjóða þangað til það byrjar að freyða og fylgist þá vel með. Þegar smjörið byrjar að dökkna og froðan verður brún ætti allt að ilma af heslihnetu og karamellu lykt. Takið þá smjörið af hitanum og leyfið að kólna yfir nótt við stofuhita. Takið einnig önnur 250 g af smjöri úr kæli og látið ná stofuhita yfir nótt.
Þegar smjörið hefur náð stofuhita, þeytið þá vel saman brúnaða smjörið og hin 250 g af smjörinu. Setjið salt út í eftir smekk. Smjörið ætti að vera létt og flott.
Lambið er Prime sneiðar. Látið marinerast í Amaretto möndlulíkjör í sólarhring. Brúnið í smjöri við háan hita. Setjið bitana í ofn í u.þ.b. 10 mín. við 160°C.
Rjómalöguð rauðvínssósa
3 shallot laukar
3 hvítlauksgeirar
1 dl af noisette smjöri
1 dl Amaretto (afgangurinn af því sem kjötið lá í)
200 ml rauðvín
400 ml rjómi
Nautakraftur
Salt og pipar
Eftir að búið er að brúna kjötið á pönnunni, svitið shallot laukinn og hvítlaukinn upp úr smjöri á sömu pönnu. Hellið svo rauðvíninu yfir og Amaretto og látið malla í örfáar mínútur. Bætið rjóma og nautakrafti út í og látið sjóða aðeins niður. Smakkið til með salti og pipar og bætið noisette smjörinu út í og hrærið á meðan. Notið töfrasprota ef þið viljið láta sósuna verða léttari í sér.
Himnesk súkkulaðikaka. Uppskriftin, sem kemur frá Signýju Jónu Hreinsdóttur, birtist í dagblaði fyrir nokkrum árum og er algjörlega skotheld og slær alltaf í gegn.
Himnesk súkkulaðikaka
1 dl sterkt lagað kaffi
100 g hrásykur
100 g sykur
200 g smjör
300 g suðusúkkulaði í bitum (má vera 70%)
4 egg
1 dl hveiti
Setjið kaffið í pott og hitið aðeins. Blandið sykri, súkkulaði og smjöri saman við og bræðið allt saman á vægum hita þannig að blandist vel.
Hrærið eggjum vel saman við blönduna. Að síðustu er hveitið sett út í.
Klæðið lausbotna kökuform (u.þ.b. 22 cm í þvermál) með bökunarpappír. Hellið blöndu í formið og bakið kökuna í um það bil 1 klst. við 170°C.
Kakan er frekar blaut í sér og bæði góð volg sem köld. Gott er að bera ávexti og þeyttan rjóma fram með henni.
Gestir Guðrúnar Hörpu og Erlendar: Kristín María Erlendsdóttir, Fannar Gauti Guðmundsson, Matthildur Harpa Fannarsdóttir, Tómas Albert Holton, Bergþóra Holton Tómasdóttir, Tómas Heiðar Tómasson, Bryndís Tómasdóttir, Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson
— VEISLUBORÐ GUÐRÚNAR HÖRPU OG ERLENDAR —
.