
Bláberjabaka með marengs
Anna Björg frænka mín kom með þessa ægigóðu bláberjaböku þegar hún og Halla Sólveig systir hennar buðu í kaffi á dögunum
.
.
Bláberjabaka með marengs
1 pk. niðurmulið heilhveitikex sem þekur botn ílátsins. Ég nota norskt kex, Rugmo heitir það. Svolítið brætt smjör sett ofan á.
Síðan hrært saman 3-4 eggjarauðum (eftir stærð íláts og eggja, ég notaði 4, en hefði líklega verið betra með 3) og sykri, 1 dl. Hrært lengi, þar til það er létt og ljóst eins og segir í uppskriftum.
Síðan hrært saman við þetta 1 dós af rjómaosti og einni dós af sýrðum rjóma, ég notaði 18%. Vanilludropar settir í. Þetta gums síðan sett ofan á mulda kexbotninn og bætt á þetta bláberjum að vild.
Marens þeyttur (4 eggjahvítur og 1,5 dl sykur) og settur ofan á allt saman. Má hafa möndluspæni ef vill (en nú eru svo margir með hnetuofnæmi, svo mér finnst best að sleppa því).
Sett í 180°C heitan ofn (minn með blæstri) og bakað þar til marensið er orðin gullinbrúnt, tók 15 mín í dag, en það þarf að fylgjast með því.

.
.