Símakurteisi
Símakurteisi tekur stöðugum breytingum, það sem var viðeigandi um síðustu aldamót er orðið breytt. Flestir símar nútímans eru miklu meira en símar, myndavélar og tölvur sem fara vel í hendi. Það er þó eitt sem ekki breytist og gott er að minna sig á: Við látum vera að hringja eftir klukkan tíu á kvöldin og fyrir klukkan níu að morgni – nema mikið liggi við.
Stundum stendur þannig á að við getum ekki svarað og fáum einhvern annan til að svara. Þá þarf viðkomandi að segja strax að hann sé að svara fyrir eiganda símans; Halló! þetta er hjá Herdísi Völu! Þetta á líka við þegar börn svara í síma fullorðinna. Á árum áður, áður en símanúmer, nafn og mynd af viðkomandi birtist, þótti fallegt að svara með nafni; Halló! Þetta er Bjarni Skúli! Þetta á ekki eins við í nútímanum þar sem við sjáum oftast á skjánum hver er að hringja.
Hringdu í mig – viltu hringja í mig?
Annars er eitthvað fallegt þegar maður er í spjalli á netinu og fær skilaboðin: Get ég hringt í þig? Öðru máli gegnir um það þegar einhver sendir sms eða skilaboð á netinu: HRINGDU Í MIG! eða VILTU HRINGJA Í MIG? Það er nú ekkert sérstaklega fallegt. Ef við þurfum að ná í einhvern þá hringjum við sjálf. Það stendur auðvitað misvel á hjá fólki og stundum eru aðstæður þannig að ekki er hægt að svara. Þá hringir viðkomandi til baka þegar betur stendur á.
Sleppum: VILTU HRINGJA Í MIG? og líka HRINGDU Í MIG!
Nokkrir símapunktar:
- Muna að kynna sig, það eru ekki allir með númerin okkar vistuð undir nafni. Setjum ekki fólk í vandræðalega stöðu með því að segja: Veistu ekki hver þetta er? Þekkirðu mig ekki?
- Tökum hljóðið af þegar þannig stendur á. Ennþá heyrast símar gjalla við jarðarfarir, á tónleikum eða í leikhúsi. Það á ekki að gerast. Skiljum símann eftir heima eða í bílnum þegar við getum alls ekki svarað.
- Upptökur og myndatökur á tónleikum eða öðrum samkomum geta verið hvimleiðar fyrir aðra gesti. Ljósið truflar líka þegar fólk er að kíkja í símana. Stundum má bara njóta augnabliksins!
- Látum ekki símana trufla, dagleg störf, kynlífið, matartíma og fjölskyldusamveru.
- Bjóðumst til að taka skilaboð ef við svörum í síma annarra.
- Fæstir geta gert vel tvennt í einu. Látum því vera að vinna húsverkin, vera í tölvunni, keyra bílinn eða annað á meðan við spjöllum í síma.
- Kjamms og óæskileg hljóð heyrast vel á „hinum endanum”. Sleppum því að borða eða drekka þegar við erum í símanum. Auðvitað eru á þessu undantekningar; Góður kaffisopi yfir símaspjalli.
- Ef við erum gestir í heimahúsi og „verðum að svara símanum” þá tökum við okkur ekki bessaleyfi og þræðum hvert herbergið á fætur öðru á meðan við spjöllum (og svölum forvitni okkar). Ef við þurfum að fara afsíðis þá er best að spyrja: Hvert má ég fara á meðan ég spjalla?
- Forðumst að segja í miðju símtali: „Ó! það er einhver að hringja í mig verð að hætta!” Svolítið eins og viðmælandinn sé lítt spennandi. Það má alltaf hringja til baka.
- Utan heimilis og bíls er ágætt að sleppa því að hafa kveikt á hátalaranum í símanum.
- Á veitingastöðum tökum við hljóðið af og höfum símann í vasanum eða töskunni. Aldrei á borðinu. Höldum myndatökum og netfærslum í lágmarki. Ef við eigum von á mikilvægu símtali, tilkynnum við það þegar sest er til borðs, höfum símann á titrara, biðjumst afsökunar þegar hann hringir og göngum afsíðis. Tölum aldrei í síma við matarborð.
- Viðskiptafundir: sími aldrei sjáanlegur. Best er að taka hljóðið af áður en komið er á staðinn og hafa símann í vasanum eða töskunni.
- Í opnum vinnurýmum: tökum hljóðið af.
- Heilsum fallega og kveðjum fallega. Þó fólk í kvikmyndum kveðji ekki þá er það ekki til eftirbreytni.
- Þrífum símana reglulega með sótthreinsandi efni.
.
.