Símakurteisi

Símakurteisi kurteisi etiquette Hringdu í mig - viltu hringja í mig?
Símakurteisi

Símakurteisi

Símakurteisi tekur stöðugum breytingum, það sem var viðeigandi um síðustu aldamót er orðið breytt. Flestir símar nútímans eru miklu meira en símar, myndavélar og tölvur sem fara vel í hendi. Það er þó eitt sem ekki breytist og gott er að minna sig á: Við látum vera að hringja eftir klukkan tíu á kvöldin og fyrir klukkan níu að morgni – nema mikið liggi við.

Stundum stendur þannig á að við getum ekki svarað og fáum einhvern annan til að svara. Þá þarf viðkomandi að segja strax að hann sé að svara fyrir eiganda símans; Halló! þetta er hjá Herdísi Völu! Þetta á líka við þegar börn svara í síma fullorðinna. Á árum áður, áður en símanúmer, nafn og mynd af viðkomandi birtist, þótti fallegt að svara með nafni; Halló! Þetta er Bjarni Skúli! Þetta á ekki eins við í nútímanum þar sem við sjáum oftast á skjánum hver er að hringja.

Hringdu í mig – viltu hringja í mig?

Annars er eitthvað fallegt þegar maður er í spjalli á netinu og fær skilaboðin: Get ég hringt í þig? Öðru máli gegnir um það þegar einhver sendir sms eða skilaboð á netinu: HRINGDU Í MIG! eða VILTU HRINGJA Í MIG?  Það er nú ekkert sérstaklega fallegt. Ef við þurfum að ná í einhvern þá hringjum við sjálf. Það stendur auðvitað misvel á hjá fólki og stundum eru aðstæður þannig að ekki er hægt að svara. Þá hringir viðkomandi til baka þegar betur stendur á.

Sleppum: VILTU HRINGJA Í MIG? og líka HRINGDU Í MIG!

Nokkrir símapunktar:

 • Muna að kynna sig, það eru ekki allir með númerin okkar vistuð undir nafni. Setjum ekki fólk í vandræðalega stöðu með því að segja: Veistu ekki hver þetta er? Þekkirðu mig ekki?
 • Tökum hljóðið af þegar þannig stendur á. Ennþá heyrast símar gjalla við jarðarfarir, á tónleikum eða í leikhúsi. Það á ekki að gerast. Skiljum símann eftir heima eða í bílnum þegar við getum alls ekki svarað.
 • Upptökur og myndatökur á tónleikum eða öðrum samkomum geta verið hvimleiðar fyrir aðra gesti. Ljósið truflar líka þegar fólk er að kíkja í símana. Stundum má bara njóta augnabliksins!
 • Látum ekki símana trufla, dagleg störf, kynlífið, matartíma og fjölskyldusamveru.
 • Bjóðumst til að taka skilaboð ef við svörum í síma annarra.
 • Fæstir geta gert vel tvennt í einu. Látum því vera að vinna húsverkin, vera í tölvunni, keyra bílinn eða annað á meðan við spjöllum í síma.
 • Kjamms og óæskileg hljóð heyrast vel á „hinum endanum”. Sleppum því að borða eða drekka þegar við erum í símanum. Auðvitað eru á þessu undantekningar; Góður kaffisopi yfir símaspjalli.
 • Ef við erum gestir í heimahúsi og „verðum að svara símanum” þá tökum við okkur ekki bessaleyfi og þræðum hvert herbergið á fætur öðru á meðan við spjöllum (og svölum forvitni okkar). Ef við þurfum að fara afsíðis þá er best að spyrja: Hvert má ég fara á meðan ég spjalla?
 • Forðumst að segja í miðju símtali: „Ó! það er einhver að hringja í mig verð að hætta!” Svolítið eins og viðmælandinn sé lítt spennandi. Það má alltaf hringja til baka.
 • Utan heimilis og bíls er ágætt að sleppa því að hafa kveikt á hátalaranum í símanum.
 • Á veitingastöðum tökum við hljóðið af og höfum símann í vasanum eða töskunni. Aldrei á borðinu. Höldum myndatökum og netfærslum í lágmarki. Ef við eigum von á mikilvægu símtali, tilkynnum við það þegar sest er til borðs, höfum símann á titrara, biðjumst afsökunar þegar hann hringir og göngum afsíðis. Tölum aldrei í síma við matarborð.
 • Viðskiptafundir: sími aldrei sjáanlegur. Best er að taka hljóðið af áður en komið er á staðinn og hafa símann í vasanum eða töskunni.
 • Í opnum vinnurýmum: tökum hljóðið af.
 • Heilsum fallega og kveðjum fallega. Þó fólk í kvikmyndum kveðji ekki þá er það ekki til eftirbreytni.
 • Þrífum símana reglulega með sótthreinsandi efni.

FLEIRI KURTEISISFÆRSLUR

Greinin birtist í Morgunblaðinu í október 2019

.

— SÍMAKURTEISI —

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.