Kanntu þig á netinu? Nokkrir fasbókarnetsiðir

Kanntu þig á netinu? netsiðir netkurteisi fasbókarkurteiski facebook Nokkrir fasbókarnetsiðir netetiquette kurteisi netið mannasiðir facebook fasbókin feisbók hegðun like læk vináttuboð samúðarkveðja á netinu
Kanntu þig á netinu? Nokkrir fasbókarnetsiðir

Kanntu þig á netinu? Nokkrir fasbókarnetsiðir

Facebook er einn vinsælasti samfélagsmiðillinn hér á landi og langflestir Íslendingar eru skráðir þar. Eflaust er þetta eitt af þessum frægu heimsmetum okkar miðað við höfðatölu. 

Langflestir tala um Facebook, en ætli besta íslenska orðið sé ekki fasbók. Fas er gamalt orð yfir andlit sem einnig táknar fas; prúðmennsku, asa, látalæti og framkomu. Fés og smetti eru aftur á móti niðrandi orð, sem eru einstaklega óviðeigandi um fólk.

Margir átta sig ekki á því að fasbókin ljóstrar ýmsu upp um okkur, sérstaklega fas! Sumir eru alltaf gleðigjafar, aðrir meira og minna í fýlu. Það er gaman að svala forvitni sinni á fasbókinni. Sumir eru virkir, en ýmsir fylgjast með og láta lítið yfir sér. 

Netsiðir eru einskonar mannasiðir á netinu, svolítið eins og óformlegar siðareglur í daglega lífinu.

 • Vináttuboð. Það er ágætt að vera „vakandi” og samþykkja ekki vináttuboð hugsunarlaust, það er jú misjafn sauður í mörgu fé. Sumt fólk sendir vináttuboð út og suður, jafnvel á fólk sem það þekkir lítið sem ekkert. Það er engin skylda að samþykkja öll vináttuboð.  Einnig er hægt að eyða þeim og „blokkera” sendandann, ef maður grunar hann um að hafa eitthvað misjafnt í huga. Ef þú hefur sent vináttuboð til einhvers og hann samþykkir þig ekki, þá er það hans val. Við sendum því ekki boð aftur og aftur.
 • Tiltekt á vinalistanum. Það er ekkert að því að taka til á vinalistanum reglulega. Förum hins vegar varlega í að henda fólki út í reiðikasti – það getur verið vandræðalegt að senda viðkomandi vináttuboð stuttu seinna.
 • Vinir faldir. Ef einhver fer í taugarnar á okkur, er sí og æ að agnúast út í eitthvað (lesist: allt og alla) eða er að býsnast yfir því hversu ömurlegt allt sé, getur verið þægilegt að fela viðkomandi. Það er hvorki hollt né gott að leyfa neikvæðni að líða um hugann.
 • Færsla/status. Ágætt er að hafa kurteisi að leiðarljósi eins og í raunheimum, forðast að vera orðljótur og setja aldrei neitt inn, nema maður geti hengt upp á töflu í vinnunni fyrir allra augum. Sumt getur verið varasamt að tjá sig um á fasbókinni eins og stjórnmál, trúmál, hvert og hvenær þú ert að ferðast (þjófar geta þá fylgst með).

Myndir þar sem áfengi er haft um hönd orka tvímælis. Það er kannski í lagi í eitt og eitt skipti og þá sérstaklega þegar við erum í boði með mörgum.

 • Reiðifærslur. Forðumst að setja inn færslur í reiðikasti eða undir áhrifum. Slíkt getur farið illa í fólk, betra er að sofa á því og umorða daginn eftir, frekar en þurfa að taka færsluna út seinna með skottið á milli lappanna…
 • Merking/töggun. Fyrir nokkrum árum var algengt að senda jólakveðju og merkja/tagga svo alla vini sína. Það gengur auðvitað ekki og er frekar ópersónuleg kveðja. Sama á við um ýmislegt annað eins og það sem fólk er að auglýsa eða vill vekja athygli á. Ef þið eruð tögguð á mynd eða viðburð, óspurð, er engin ókurteisi að af-tagga sig.  Margir unglingar vilja ekki að foreldrar þeirra merki þá, og því getur verið gott að spyrja börnin álits, áður en þau eru merkt, t.d. á mynd.
 • Samúðarkveðjur. Á fyrstu árum fasbókarinnar hérlendis var engu líkara að en fólk kepptist við að verða fyrst til að setja inn samúðarkveðju ef það frétti af andláti. Ef sá sem misst hefur ástvin setur inn tilkynningu, þá er í lagi að votta samúð þar undir. Förum alls ekki beint á fb um leið og við heyrum af andláti til þess að senda samúðarkveðjur sem allir sjá. Það sama á við um kross, hjarta eða önnur tákn án skýringa. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
 • Athugasemdir. Gott er að muna að athugasemdir geta verið særandi, móðgandi eða óviðeigandi. Við erum í fullum rétti til að eyða óæskilegum athugasemdum af okkar síðum.
 • Persónulegar upplýsingar. Hver og einn metur hversu miklar upplýsingar hann vill hafa og gott getur verið að uppfæra upplýsingarnar við og við. Þetta getur átt við upplýsingar eins og starf, menntun, persónulega hagi/sambönd, símanúmer og netfang. Þetta er yfirleitt óþarfi, því að oftast er auðvelt að ná í fólk í gegnum fasbókina, þar sem hægt er að senda skilaboð.
 • Skilaboð. Skilaboðaspjallið á fb er þægilegt. Í spjalli fólks sem þekkist vel er í lagi að sleppa því að heilsa og kveðjast sérstaklega.

Vörumst að hafa of marga í hópspjalli. Oft eru hópskilaboðin hugsuð til að koma ákveðnum upplýsingum fljótt til fólks. Stundum er verið að benda á að lesa póstinn eða senda internetslóð. Í slíkum tilvikum þarf ekki að svara, það getur verið pirrandi að fá endalaus svör. Ef send eru skilaboð á marga og erindið á ekkert sérstaklega við um þig, þá getur verið í lagi að yfirgefa samtalið.

Ef við viljum vera með rafræn blíðuhót við maka er mun betra að það fari fram í skilaboðum frekar en á opnum síðum – það getur verið vandræðalega óþægilegt að lesa persónuleg skilaboð eins og: „Ástin mín, á afmælisdeginum þínum langar mig að segja þér hvað þú ert …“ Talar þetta fólk ekki saman?

 • Sæta, sæta. Það er alveg spurning hversu mikil einlægni er þegar aftur og aftur er skrifað Sæta, sæta undir myndir eða Flotta, flotta. Þetta er kannski svolítið ofnotað?
 • Myndir. Það er vel þekkt að setja fjölmargar myndir inn af sama atburðinum á vegginn sinn. Betra er að setja inn fáar en góðar.

Við þurfum að fara varlega í að setja inn myndir af börnum annarra á fasbókina.

Ekki birta hvaða mynd sem er af vinum. Þá er ekkert að því að biðja um að mynd af okkur sé fjarlægð. Það á nú samt varla við ef fjölmargir eru á myndinni eða myndin hluti af myndaalbúmi.

Setjum ekki inn myndir með textanum: Það vita nú allir hver þetta er.

Við deilum hvorki myndum af nýfæddum börnum án samþykkis foreldranna né myndum af fáklæddum börnum. Myndir hafa verið teknar af fasbókinni og notaðar í slæmum tilgangi.

Sumir birta sjálfur (selfie) nánast á hverjum degi og skrifa t.d; „smá laugardags eða þriðjudags fín” – öllu má nú ofgera!

 • Veikindafærslur. Stundum viljum við samúð og smá vorkunn. Vörumst að birta tvíræðar færslur eins og „Á Slysó eina ferðina enn…” án þess að útskýra hvað hafi komið fyrir. Förum varlega í að greina frá veikindum dag eftir dag.
 • Allt á fasbókina? Því má ekki gleyma að við berum ábyrgð á eigin netfærslum. Umferð okkar um Netið er rekjanleg. Einhvern tíma var sagt: Settu aðeins það á fasbókina sem þú þorir að segja við ömmu þína, augliti til auglitis! Kannski á það bara vel við.

„Allar færslur á fasbókinni eru grobbfærslur” sagði ágætur maður. Það er kannski eitthvað til í því.  

 • Poke/pot. Það er misjafn skilningur sem fólk leggur í að pota í einhvern á fasbókinni. Sumir líta á pókið sem daður, öðrum finnst það vera saklaust grín og aðeins til þess að undirstrika hvað viðkomandi er frábær persóna.
 • Like/læk.  Oftast þýðir læk að við tökum undir það sem sagt er. Það þarf þó ekki að vera að okkur líki það, t.d. ef um eitthvað sorglegt að ræða, sem er engin gleðifregn, en gefur þeim sem setti færsluna inn staðfestingu á að maður hafi séð/lesið færslu. Þannig sýnir fólk jafnvel samhygð með því að læka.

Stundum mætti halda að fólk sé í keppni um að fá sem flest like. Það er ekkert sérstaklega smart að læka eigin færslur.

Spörum að læka myndir sem eru orðnar meira en 6-7 mánaða. Það er allt í lagi að svala forvitni sinni, en það þurfa ekki allir að vita af því.

 • Upplýsingaveita. Fasbókin er upplýsingaveita. Sumir sem setja mjög lítið inn, eiga til að setja sig á háan hest og hneykslast á öðrum: „Ja! Þessi er nú bara með líf sitt opið og deilir bara öllu sem hún gerir.” Í stað þess að býsnast, er enginn vandi að fela fb vini (eins og áður segir), ef manni finnst þeir of opinskáir. Góðlegir krókódílar á fasbók eru meinlausir, svo lengi sem þeir eru ekki að tuða yfir þeim sem nota miðilinn mikið. (Krókódílar eru þeir sem eru á fb, lúra og fylgjst með en koma sjaldnast úr kafi…)
 • Hópur stofnaður um ákveðið málefni. Margir stofna fasbókarhóp sem aðeins er ætlaður meðlimum hópsins. Dæmi um þetta er nánasta fjölskylda, tómstundaiðja,  vinnustaður, ferðalög, giftingar eða veikindi. Stundum setja stjórnendur hópanna reglur um hvað má og hvað ekki.

Ef meðlimur hóps setur fram spurningu eða málefni, þar sem augljóst er að hann vill fá viðbrögð, þá er skrýtið að skoða, en hunsa færsluna. Til dæmis ef einhver í fjölskylduhóp setur inn: „Það væri sniðugt að hafa ættarmót í sumar”, – og svo koma engin eða lítil viðbrögð,  kannski einstaka læk.

Margt fleira mætti nefna, en ég læt hér staðar numið. Ef við göngum af kurteisi og virðingu um fasbókina erum við alltaf á grænni grein og þá getur fasbókin verið uppspretta gleði, fróðleiks og góðra samskipta.

Kanntu þig á netinu? Nokkrir fasbókarnetsiðir
Kanntu þig á netinu? Nokkrir fasbókarnetsiðir
Kanntu þig á netinu? Nokkrir fasbókarnetsiðir
Kanntu þig á netinu? Nokkrir fasbókarnetsiðir

— KANNTU ÞIG Á NETINU? NOKKRIR FASBÓKARNETSIÐIR —

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.