Kærleikskleinur Bjargar
Björg Pétursdóttir söngkona stakk uppá að steikja kærleikskleinur fyrir bloggið. Hugmyndina nefndi ég við hana að morgni og seinnipartinn var hún búin að steikja kleinurnar.
Hvað eru kærleikskleinur? „Árið 2015 greindist besta vinkona mín með brjótakrabbamein. Brjóstið var tekið og hún fór í meðferð og allt leit vel út í fyrstu. Þegar meinið tók sig upp aftur ákváðum við Erlingur að vera með fjáröflun fyrir hana og hennar fjölskyldu með því að steikja kleinur og sitthvað annað bakkelsi. Kleinurnar okkar fengur nafnið Kærleikskleinur og voru sagðar þær bestu í heimi. Fólk pantaði aftur og aftur. Við seldum vel af kleinunum og öll innkoma fór til elsku Kæju. Við gerðum þetta svo aftur 2018 þegar krabbinn var komin í líffærin. Við sjáum sko ekki eftir þeim tíma sem fór í það að steikja kleinurnar.
Kæja lést í ágúst í fyrra og var boðið upp á Kærleikskleinurnar í erfidrykkjunni hennar.”
🍀
— KLEINUR — ÍSLENSKT — KAFFIMEÐLÆTI —
🍀
Kærleikskleinur Bjargar
1 kg hveiti
300 g sykur
100 g smjörlíki
2 egg
2 tsk lyftiduft
2 tsk hjartarsalt
500 ml súrmjólk
1 tsk vanilludropar
1 tsk kardemommudropar
1 tsk sítrónudropar
Blandið þurrefnunum saman og blautefnum saman.
Skellið svo öllu saman í skál og hnoðið í hrærivél með króknum.
Setjið deigið á hveitistráð borð og hnoðið þangað til það er ekki lengur klístrað.
Gott er að skipta deginu í tvo parta því degið er frekar mikið.
Fletjið deigið út, skerið út tígla og smá gat í miðjuna, takið annan endan á tíglinum og setjið inn í gatið og dragið í gegn.
Þegar komið er að því að steikja kleinurnar er gott að nota til dæmis Palmín steikingarfeiti. Bræðið fituna í góðum potti. Gott er að nota smá deigbút til að setja út í til að athuga hvort feitin sé tilbúin til notkunnar. (VARÚÐ, FEITIN VERÐUR MJÖG HEIT)
Setjið ca 5-6 kleinur í pottinn í einu, snúið þeim við með fiskispaða til að steikja kleinurnar þar til þær verða gullinbrúnar.
Veiðið kleinurnar upp úr pottinum og setjið þær á ofnskúffu sem búið er að klæða með eldhúspappír eða hreinu viskastykki.
Fáið ykkur þér svo kleinur og ískalda mjólk með. Kærleikskveðjur, Björg
🍀
— BRAUÐ — BAKSTUR — BOLLUR — KAUPMANNAHÖFN — LEMON CURD —
🍀
— KLEINUR — ÍSLENSKT — KAFFIMEÐLÆTI —