Sumarlegt kjúklingasalat
Hrönn Önundardóttir er fædd, uppalin og búsett í Kópavogi. Hún og Ólafur Atli eiga stóra fjölskyldu og líf og fjör þegar þau hittast.
Hjúkrunarfræðingurinn Hrönn starfar sem deildarstjóri á Hrafnistu í Hafnarfirði „það er algjörlega skemmtilegasti og besti vinnustaður sem ég hef verið á. Það svífur svo mikil hlýja og mennska inni á heimilinu – við erum eins og lítið þorp úti á landi, það kannast allir við alla, allir heilsast og bera umhyggju fyrir næsta manni. Ég tel mig mjög heppna að hafa lagt leið mína á Hrafnistu.”
.
— SALÖT — SUMAR… — FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR — BRAUÐ —
.
Hrönn finnst næstum allur matur góður, það er ef hann er ferskur = ómeðhöndlaður. Hún borðar sjaldan unnar eða forkryddaðar matvörur og meginuppistaðan í matnum hennar hefur alltaf verið grænmeti. „Ég byrjaði mjög snemma að prófa mig áfram við grænmetisfæði og baunarétti, löngu áður en það varð vinsælt hérlendis. Mér er sérstaklega minnistætt fyrir 17 árum þegar ég bauð uppá baunarétt og hráköku í saumaklúbb. Eitthvað gekk lítið á veitingarnar og mörgum árum síðar viðurkenndu vinkonur mínar að þetta hefði verið alverstu veitingar sem þær hefðu nokkurntíman smakkað. Fyrir 3 árum gerði ég nákvæmlega sama mat og köku fyrir þennan sama vinkonuhóp og ég hafði verið með 15 árum áður. Þær gerðu þessu öllu góð skil og lofsömuðu frammistöðu mína. Svona breytast áherslurnar og matarsmekkur fólks 😉 ”
Sumarlegt kjúklingasalat – Fyrir 4-6
700 g kjúklingur (eða 4 bringur)
1 poki spínat
½ – 1 poki klettasalat
1 askja kirsuberjatómatar – skornir í tvennt eða fernt
2 avocadó – skorin í stóra teninga. Kreystið sítrónusafa yfir og saltið. Látið standa í 10-15 mín.
1 mangó- skorið í litla bita
sítróna (kreyst yfir avókadóið og restin yfir salatið í lokin)
ristaðar kasjúhnetur
bláber
passion fruit – fræin
Fetaostur í olíu
1-2 bollar soðið og kælt kínóa (soðnir í ca 7-10 mín eftir að suðan kemur upp – ekki gott ef þeir maukast)
Kryddlögur á kjúkling
Rifinn börkur af einni sítrónu
2-3 rautt chili – fræhreinsað
1 laukur
125 ml hnetusmjör
1 msk karrý
150 ml Grísk jógúrt
4 msk hreinn rjómaostur
Allt sett í mixara og mixað vel. Takið hluta af soppunni frá og geymið til að nota sem sósu (sósan líka góð með grillmat). Ef sósan er of sterk má bæta í hana meira af grískri jógúrt
Kjúklingurinn lagður í kryddlöginn í ½ – 1 sólahring. Steiktur á pönnu, í ofni eða grillaður, kældur og svo skorinn í hæfilega bita. Gott er að skafa mesta kryddlöginn af áður en kjúklingurinn er settur á pönnu eða grill. Ef er ofnbakað er bara gott að hafa kryddlöginn með í fatinu.
Salatinu raðað í víða skál: fyrst er sett grænt salat svo kínóa og blandað létt saman. Þá er tómötum og mangó dreift yfir svo kjúklingi og avocado. Þá er berjum og fræjum stráð yfir og síðast ristuðum kasjúhnetum.
Gróft hollustubrauð
3 dl sólblómafræ
1 dl graskersfræ
2 dl heslihnetuflögur
6 dl tröllahafrar
2 dl hörfræ
1 dl husk (psylluium fræskurn/gróft duft)*
½ dl chia-fræ
½ dl hlynsíróp
⅔ dl ólífuolía
½ lítri vatn
Ristið sólblómafræ og graskersfræ á pönnu. Setjið í skál. Léttristið heslihnetuflögurnar og blandið saman við. Setjið þá restina af hráefnunum saman við í skálina og blandið vel saman. Það er ágætt að nota hendurnar til þess að kreista deigið saman þannig að það þéttist. Smyrjið stórt form með olíu og jafnið deiginu í það. Setjið filmu yfir og látið þetta standa í nokkrar klst. við stofuhita, eða í kæliskáp yfir nótt. Bakið við 190°C í um klst. Látið brauðið kólna alveg áður en það er skorið. *Husk fæst í apótekum og heilsubúðum
„Uppáhaldsstaðurinn minn er Jökulsárgljúfur – Ásbyrgi, Hljóðaklettar, Hvannalindir, Dettifoss. Þarna hef ég komið margoft, þar er hægt að finna margar gönguleiðr sem hentar vel að fara með börn en líka lengri leiðir. Bergmyndunin, jökulvatnið, bergvatnið og gróðurinn kemur mér endalaust á óvart. Ég finn alltaf frið og ró færast yfir mig þegar ég kem þarna og ég fyllist endalausri orku, gleði og þakklæti fyrir að vera hér og nú.”