Dúllað svepparisottó hjá Hildigunni Einars
Hildigunnur Einarsdóttir er afar flink í eldhúsinu. Hún er með veisluþjónustuna Sono matseljur, ásamt Sillu Knudsen vinkonu sinni og þær sérhæfa sig í vegan- og grænmetisveislum. Hildigunnur er af miklu matarkyni komin, dóttir Jóhönnu V. Þórhalldóttur og segja má að þær séu báðar landsfrægar fyrir fagran söng og góðan mat.
— HILDIGUNNUR EINARS — RISOTTÓ — EFTIRRÉTTIR — PAPRIKUR — JÓHANNA ÞÓRHALLS —
.
Risottó með sveppum
Eitt box Flúðasveppir (eða þeir sveppir sem eru spennandi)
100 g smjör
5 msk ólífuolía
Timian, rósmarín eða Herbes de provence
2 tsk bláberjasulta
½ laukur (rauðlaukur)
¼ fennel
3-4 gulrætur
4 hvítlauksrif
½ rauður chilli eða þurrkaðar chilliflögur
2,5 dl Arborio hrísgrjón
½ flaska hvítvín
1,5 dl af góðu grænmetissoði
Bragðbætir:
Ferskt eða þurrkað timian
Lime börkur
Salt og pipar
Ristaðar heilar heslihnetur
Þurrkaðir villisveppir eru gómsætir ef völ er á
Steikið eitt box af sveppum upp úr smjöri og timian. Þegar þeir hafa dregið í sig smjörið er tilvalið að pipra og salta vel. Etv gott að setja smá bláberjasultu út í. Setjið til hliðar.
Skerið hálfan lauk, 3 gulrætur, tvö lauf af fennel, 3 hvítlauksrif smátt
Bræða 2 msk smjör og setja 3 msk ólífuolíu í stóran pott, og hvítlaukinn strax úti til að hann hitni með
Steikja laukinn, gulræturnar og fennel við vægan hita og salta og pipra
bæta 1 bolla (u.þ.b. 2, 5 dl) af arborio hrísgrjónum út í og steikja með þar til þau byrja að verða örlítið glær
Þá má byrja að hella hvítvíni saman við, einn dl í einu. Ég kaupi oft litla flöskur af ágætis hvítvíni til að eiga í ísskápnum til að gera risotto. Mér finnst þá gott að nota heila svoleiðis flösku. Þegar hvítvínið er gufað upp má fara að setja gott grænmetissoð út í (er með 1, 5 l með 2-3 teningum)- einnig smátt og smátt, dl eða minna í einu. Hræra vel þegar vökvinn er kominn út í. Passa að ekkert brenni í botninum.
Hér má dúlla við risottoið, og fara að setja timian, lime börk, salta og pipra betur. Ef það verður of salt finnst mér gott að setja jafnvel örlítið hunang eða bláberjasultu (þegar ég er með sveppa). Sveppirnir geta farið út í líka á þessu stigi. Ef þú þolir ekki salt má nota vel af lime eða sítrónu berki.
Þegar risottoið hefur áferð að þínum smekk hrærirðu 2-3 dl af parmesan osti saman við.
Borið fram t.d. með meiri parmesan, lime berki, timian grein, örlitlu krækiberjasafti eða ristuðum heslihnetum, nú eða bara öllu.
Balsamsírópslegin jarðarber með rjómaostakremi
Eitt stórt box af jarðarberjum (u.þ.b. 300 g)
6 msk af góðu balsamediki
3 msk af sykri eða sætu af eigin vali.
Látið jarðarberin standa í amk 2 tíma í ísskáp í balsamsírópinu
Krem
200 g rjómaostur
3 msk hlynsíróp
½ tsk vanilludropar eða fræ úr hálfri vanillustöng
2 tsk appelsínubörkur
1 msk safi úr appelsínu
Borið fram með limeberki og basilikkulaufi ef vill
–
— RISOTTÓ — EFTIRRÉTTIR — PAPRIKUR — JÓHANNA ÞÓRHALLS —
— DÚLLAÐ SVEPPARÍSOTTÓ HJÁ HILDIGUNNI EINARS —
—