Veisluborð hjá Kvennakór Ísafjarðar
Bergþór minn tók að sér að stjórna Kvennakór Ísafjarðar, ég fékk að vera fluga á vegg á æfingu kórsins. Þetta var æfing sem lauk á matarveislu og söng af ýmsu tagi og karókí. Slíkar æfingar eru a.m.k. einu sinni á önn. Í þetta sinn var mexíkóskt þema. Það má með sanni segja að það er ekki bara metnaður í söng hjá Kvennakór Ísafjarðar, heldur einnig og ekki síður í veitingum.
— ÍSAFJÖRÐUR — KVENNAKÓRAR — KÓRAR — MEXÍKÓ — KLÚBBARÉTTIR — PÁLÍNUBOÐ — DUMLE —
.
Dumble nammibitar
300 g Dumle karamellur
130 g smjör
200 g lakkrísreimar (fylltar eða ófylltar)
90 g kornflex, mulið gróft
Bræðið karamellur og smjör í potti
Bætið lakkrís (skerið niður) og kornflexi saman við hrærið saman.
Setjið í form (24x34cm), klætt smjörpappír. Kælið
Krem
400 g rjómasúkkulaði
60 g smjör
Bræðið súkkulaði og smjör. Hellið yfir nammið í forminu.
Kælið. Skerið í litla bita
Köld salsaídýfa. Hér er uppskrift af köldu salsa sem er eiginlega engin uppskrift, meira svona slump en er sirka svona 🙂
400 gr. hreinn rjómaostur
1 krukka doritos salsa sósa
Hrært saman og sett í form.
Iceberg salat, tómatar og rauðlaukur skorið smátt og dreift yfir.
Borðað með doritos flögum.
Mexíkóskt lasagna
500 gr nautahakk
1 msk ólífuolía
3 stórar tortillur
½ meðalstór rauðlaukur, smátt saxaður
½ rauð paprika, smátt söxuð
½ græn paprika, smátt söxuð
1 box sveppir smátt saxaðir
¼ rautt chili, fræhreinsað og smátt saxað
2-3 msk kóríander, smátt saxað
Mexíkósk kryddblanda
1 dós gular baunir
1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir
250 gr salsasósa (medium)
3 msk hreinn rjómaostur
Rifinn ostur
Nachos flögur
Salt og pipar
Skolið grænmetið og skerið í litla bita. Hitið olíuna í potti við vægan hita og setjið grænmetið út í og mýkið. Brúnið nautahakkið á pönnu og bætið kryddblöndunni saman við samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Blandið því næst hakkblöndunni saman við grænmetið í pottinum. Bætið gulu baununum, niðursoðnu tómötunum, salsasósunni og rjómaostinum saman við. Hrærið svo vel í og kryddið með salti og pipar.
Að lokum saxið þið um það bil 2 msk af ferskum kóríander og bætið við. Leyfið þessu að malla við vægan hita í nokkrar mínútur. Munið að smakka ykkur til með salti og pipar. Setjið helminginn af hakkblöndunni í botninn á eldföstu móti, raðið tortillakökunum yfir og restina af hakkblöndunni yfir. Dreifið rifnum osti yfir. Setjið réttinn í ofn og bakið við 180°C í 25 – 30 mín. Þegar rétturinn er kominn út úr ofninum er gott að stinga nachos flögum meðfram kantinum og strá fersku kóríander yfir. Gott að bera sýrðan rjóma og nachos flögur fram með réttinum.
Blómkáls buffalo vængir
150 gr. hveiti
1 tsk. papriku krydd
1 tsk. hvítlaukskrydd
1 tsk. salt
1/2 tsk. pipar
1 tsk. chilli pipar
2 msk. olía
30 gr. hunang
200 ml. mjólk
1 stk. stór blómkálshaus.
120 ml. Red hot wings sósa
– Kveikja á ofninum og stilla á 200° blástur
– Taka blómkál í sundur og skipta upp í hentuga stærð
– Allt innihald sett saman í skál og hrært vel saman, blómkáli velt upp úr og sett í eldfast mót.
– Inn í ofn í u.þ.b. 20-25 mín
– Í lokinn 1 msk. hunang og 1 msk. olíu hrært saman og smurt létt yfir vængina áður þeir eru bornir fram.
mjög gott er svo að bera þetta fram með gráðostasósu 🙂
Quesadilla hringur
4-5 dl rifinn kjúklingur (ég keypti heilan kjúkling og reif hann niður)
10 sneiðar beikon
1 ½ dl blaðlaukur
2 tómatar
3 pkn hveititortillur frá Mission
1 krukka salsasósa frá Mission
1 krukka ostasósa frá Mission
2 dl Havarti ostur með jalapeno (fæst t.d. í Krónunni)
2-4 dl rifinn mozzarella ostur
2 dl rifinn cheddar ostur
Ferskt kóríander
AVÓKADÓ SÓSA
3 avókadó
1 dl sýrður rjómi
Safi úr 1 lime
½ tsk salt
¼ tsk pipar
¼ tsk laukduft
¼ tsk hvítlauksduft
Chili flögur eftir smekk
Byrjið á því að leggja beikonið á bökunarplötu þakta bökunarpappír og bakið í 10-12 mínútur við 200°C eða þar til beikonið er orðið stökkt.
Skerið blaðlauk, tómata og beikon smátt.
Setjið rifinn kjúkling í skál. Bætið út í blaðlauknum, tómötunum, beikoni, 2 dl rifnum Havarti osti með jalapeno, 1 dl rifnum cheddar osti og salsa sósunni. Blandið vel saman.
Skerið tortillurnar til helminga og smyrjið með rúmlega 1 tsk af ostasósu. Dreifið rifnum mozzarella osti yfir og rúmlega 1 msk af kjúklingablöndunni á alla helmingana. Rúllið tortillunum upp þannig að þær mynda kramarhús.
Notið hringlótt eldfast mót eða bökunarpappír. Setjið þá sósuskál sem þið ætlið að nota í miðjuna. Raðið tortilla rúllunum upp í hring.
Blandið saman 1 dl cheddar ost og 1 dl mozzarella ost. Dreifið helmingnum af ostinum yfir tortilluhringinn og raðið svo restinni af tortillurúllunum ofan á þannig að það myndist tvær hæðir. Dreifið svo restinni af ostinum yfir.
Takið sósuskálina frá og bakið í ofni við 190°C í 10-12 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður.
Blandið öllum hráefnunum í sósuna saman með töfrasprota eða matvinnsluvél. Hellið í sósuskálina og setjið hana í miðjuna á tortilluhringnum. Dreifið kóríander yfir eftir smekk og njótið.
Frönsk súkkulaðiterta
Kakan:
4 egg
2 dl sykur
200 gr smjör
200 gr suðusúkkulaði
1 dl hveiti
Súkkulaðibráð:
150 gr. suðusúkkulaði
70 gr. smjör
2 msk. sýróp
Kakan: Hitið ofn í 170C. Egg og sykur þeytt vel. Smjör og súkkulaði brætt saman við vægan hita og er svo varlega bætt saman við eggin og sykurinn. Bætið hveitinu saman við og hrærið. Setjið í form og bakið í 30 mín (hún á að vera svolítið blaut – ég hef klætt lausbotna form með ál- eða bökunarpappír, bæði svo hún leki ekki úr og auðvelt að ná henni úr).
Súkkulaðibráð: Allt brætt saman við vægan hita, kælt aðeins og svo hellt yfir kökuna.
Best með þeyttum rjóma og berjum 🙂
.
— ÍSAFJÖRÐUR — KÓRAR — MEXÍKÓ — KLÚBBARÉTTIR — PÁLÍNUBOÐ — KVENNAKÓRAR —
.