
Hafragrautur Möggu Stínu
Magga Stína, tónlistarkona og gleðigjafi, býr á Drangsnesi á Ströndum. Á sumrin gengur hún léttstíg um Grímsey á Steingrímsfirði með ferðamenn og á veturna starfar hún sem sundlaugarvörður. Hún byrjar hvern einasta morgun á hafragraut og hefur þróað sína eigin útgáfu í gegnum árin.
Að sögn Möggu Stínu eru tvö atriði sérstaklega mikilvæg þegar hafragrautur er útbúinn: að skola haframjölið tvisvar áður en soðið er upp á því – og að hræra í grautnum með gaffli, ekki sleif.
.
— MAGGA STÍNA — DRANGSNES — HAFRAGRAUTUR — MORGUNMATUR — KRÆKIBER — GRÍMSEY —
.

Hafragrautur Möggu Stínu
Setjið haframjöl í pott, látið kalt vatn renna yfir það og hellið síðan vatninu af. Endurtakið skolunina. Bætið því næst vatni út í þannig að rétt fljóti yfir haframjölið og hrærið í með gaffli. Setjið þá hörfræ, (frosin) krækiber, kókosflögur og örlítið salt út í.
Sjóðið í nokkrar mínútur, þar til grauturinn er orðinn mjúkur og hæfilega þykkur.
Stráið kanil yfir og berið fram með rjóma.

.
— MAGGA STÍNA — DRANGSNES — HAFRAGRAUTUR — MORGUNMATUR — KRÆKIBER — GRÍMSEY —
.

