
Sælkerar par excellence á Ísafirði
Fyrir áratug gáfu hjónin og matreiðslumeistararnir Guðlaug Jónsdóttir og Karl Kristján Ásgeirsson, á Ísafirði út bókina „Boðið vestur“. Guðlaug er ákaflega ritfær og bókin er full af fróðleik um vestfirskan mat og matarhefð. Uppskriftirnar byggjast á hráefni að vestan. Afar vönduð bók og eiguleg.
Þegar við fluttum til Ísafjarðar, heyrðum við fljótlega af þessum 5 stjörnu sælkerum, en vissum ekki að þau ættu garðinn sem var svo fallegur, ræktarlegur og smart að við urðum að taka mynd. Enda kom í ljós í matarboði hjá þeim að nostrað er við hvert smáatriði frá A til Ö, eins og nostrið við garðinn hafði gefið til kynna.
Didda og Kalli kynntust í Grillinu á Hótel Sögu þar sem þau lærðu bæði – það gerðu einnig vinahjón þeirra, Baldur Sæmundsson, áfangastjóri í M.K. og Ólöf Guðjónsdóttir, þjónn á Vox, sem voru þeim til fulltingis í boðinu. Og þar var allt hægt að læra um framreiðslu, vín og eldamennsku.
Á pallinum var opnað Veuve Clicquot kampavín frá 2008 sem þau höfðu keypt í höfuðstöðvunum í Frakklandi. Með þessu voru snittur með gæsalifrar terrine og andalifrar paté. Þá færðum við okkur í gróðurhúsið þar sem ekki færri en 6 forréttir voru á hverjum diski. Lambafillé á beini var svo grillað í grilli sem hægt er að stilla hitann á og borið fram með smjörsteiktum steinseljukartöflum, dásamlegri sósu, snöggsoðnu grænmeti og maís. Lostæti. Í lokin var svo eftirréttur úr Boðið vestur úr smiðju Dagbjartar Hjaltadóttur kennara á Súðavík.
Sannkallaðir höfðingjar og sælkerar par excellence heim að sækja.
— ÍSAFJÖRÐUR — LAMBAKJÖT — LUNDI — KAMPAVÍN — AÐALBLÁBER — FRAKKLAND — SÚÐAVÍK —
.







Berjapæja Dagbjartar – 6 litlar souffle skálar
1 ½ dl gróft spelt (eða heilhveiti)
1 ½ dl púðursykur
1 ½ dl tröllahafrar
¼ tsk. fínt salt
½ tsk. kanill
50 g lint smjör
————————————————
180 g aðalbláber – frosin eða ný, svolítill hrásykur
Blandið öllum þurrefnum saman í skál. Klípið smjörið saman við þannig að myndist gróf mylsna. Smyrjið souffle skálarnar með smjöri. Setjið berin í botninn á skálunum. Ef notuð eru frosin ber er gott að láta þau slakna aðeins í skálunum og strá síðan svolitlum hrásykri yfir þau. Myljið deigið yfir – fínt að hafa það um það bil tveggja cm þykkt. Bakið við 180°C í 20 mín.




.
— ÍSAFJÖRÐUR — LAMBAKJÖT — LUNDI — KAMPAVÍN — AÐALBLÁBER — FRAKKLAND — SÚÐAVÍK —
.