Hótel Siglunes og marokkóskur gæða matur
Það er vel þess virði að gera sér ferð til Siglufjarðar til að fara á marokkóska veitingastaðinn á Hótel Siglunesi. Og þá meina ég a.m.k. árlega.
Við fórum í okkar árlegu vísitasíu um daginn, borðuðum um kvöldið, gistum á hótelinu og urðum ekki fyrir vonbrigðum frekar en fyrri daginn. Hálfdán hótelstjóri þjónaði sjálfur til borðs og fyrir bragðið var þessi heimsókn enn persónulegri.
— HÓTEL SIGLUNES — SIGLUFJÖRÐUR — FERÐAST UM ÍSLAND — MAROKKÓ —
.
Hann sagði okkur að allt grænmeti væri ræktað á staðnum, en kínverskur hjúkrunarfræðingur hefur séð um ræktunina. Þar sem hún er frábær kokkur, hefur hann verið að vinna í að fá hana til að elda og nýjasta nýtt er að kínverskur matur verður á boðstólum á mánudögum. Spennandi!
En maturinn sem hann Jaouad Hbib frá Marokkó býður upp á er ekki af þessum heimi. Samsetningarnar koma alltaf á óvart. Við hófum leika á eggaldinsalatinu sem má hiklaust mæla með. Hverjum dettur í hug að setja í uppskriftina rækjur, mangó, avókadó, heimagerðan ost, ólífur, salatblöð, eggaldin með tómat pistou sósu og svo alla bragðsinfóníuna úr kryddunum.
Lambið var silkimjúkt, tagínurnar eru galdratæki. Þarna kemur þetta undir loki á borðið og svo er sjóðandi rétturinn undir. Maður þarf því ekki að vinda sér í að borða því að maturinn verður ekki kaldur næsta klukkutímann. Það er gott að borða hægt. Þarna voru apríkósur , valhnetur, gæðafíkjur beint frá Spáni, Bragðmikill með mörgum kryddum.
Fiskurinn var sömuleiðis mjög bragðmikill með vænum slurk af chili og þarna voru ólífur, gulrætur, lime, fennika, kartöflur og ég veit ekki hvað og hvað.