Lítil falleg jólasaga
Soffía Jóhanna Gestsdóttir setti inn þessa jólasögu til minningar um afa hennar, Jóhannes Jónsson frá Asparvík á Ströndum sem fæddist á jóladag 1906 lést í nóvember 1984. „Mér finnst þetta vera sagan hans. Þetta var svona lítil hugljúf jólasaga, allir hafa gaman af jólasögum.”
— SOFFÍA JÓHANNA — JÓLASÖGUR — JÓLIN — SÖGUR — VINSÆLUSTU SMÁKÖKUUPPSKRIFTIRNAR —
.
Á lágu háalofti, alveg upp undir mæni lágu kassar í snyrtilegum röðum.
Í þessum kössum kenndi ýmissa grasa. Þar var fatnaður sem var geymdur ár eftir ár, og safnaði í sig fúkkalykt. Gömul leikföng sem aldrei yrði handleikin af litlum höndum. Skólabækur og skólaverkefni sem enginn hafði áhuga á.
Innst í norðurendanum á loftinu kúrði lítill kassi sem hafði sérstöðu. Þessi kassi var tekinn niður einu sinni á ári. Ár eftir ár, eini kassinn sem naut þeirra forréttinda. Í þessum kassa lúrði lítið lúið jólatré, í þessum kassa voru líka tvær ljósaseríur ein bjöllusería sem hafði verið alla tíð með trénu í kassanum og ein með perulöguðum ljósum sem bættist í hópinn nokkrum árum seinna.
Jólin nálguðust jólatréð fann ilminn af heimabökuðum kökum upp í norðurhornið á loftinu.
Daginn sem hangikjötslykt barst upp var dagurinn sem það yrði tekið niður, það fór gleðistraumur um allar greinarnar, við tilhugsuninni við þessa skemmtilegu daga sem framundan voru.
Gamli maðurinn dró kassann varfærnislega að stigaskörinni og bar hann niður brattann stigann.
Lítill trékollur beið í stofunni, hann var allur í málningaslettum en yrði þakinn hvítri mjúkri bómull, þannig að málningarsletturnar sæust ekki. Gamli maðurinn vafði þessari hvítu og mjúku bómul utan um kollinn.
Setti svo tréð ofan á hann og lagaði greinarnar varfærnislega og vafði utan um þær seríunum bjölluseríunni neðst þar sem greinarnar voru þykkastar.
Jólin voru komin og við tóku yndislegir dagar, ljósin loguðu allan sólarhringinn, lítil börn horfðu agndofa á þetta fallega skreytta tré og á alla pakkana sem var raðað í kringum það. Gleði og glaumur, söngur og hlátur, matarlykt, kökulykt og kaffilykt.
Nú var hátíð í bæ.
En eins og með allt, taka hátíðir enda. Jólatréð var komið ofaní kassann ásamt ljósaseríunum og kassinn á sinn stað í norðurenda háaloftsins.
Dagarnir liðu, tréð heyrði að eitthvað mikið gekk á hlerinn upp á loftið opnaðist og hver kassinn á fætur öðrum var borinn niður. Fjölskyldan var að flytja, ekki gleyma mér kallaði litla tréð, en það heyrði enginn í því. Hlerinn lokaðist. Kassinn með trénu var orðinn einn eftir á loftinu.
Dagarnir liðu jólatréð heyrði að verið var að bera kassa upp á loftið, ný fjölskylda var flutt í húsið.
Jólin komu og smákökulykt barst upp á loftið, ekki sú sem það þekkti öðruvísi góð. Enginn náði í kassann. Litla tréð var gleymt.
Árin liðu einn dag fann tréð að einhver fór um það varfærnum höndum. Það heyrði blíða rödd segja en hvað þetta er yndislegt tré það á heima á safni.
Kassinn var tekinn niður og nokkrum dögum seinna var litla jólatréð komið á fallegt byggðarsafn. Það stóð í öndvegi upp á litlum kolli, með sömu gömlu seríurnar utan um greinarnar sínar. Seríurnar sem það þekkti svo vel.
Allir dagar voru jól, því var ekki pakkað framar niður í kassa.
Stóð stolt alla daga með blikandi ljós og gladdi alla sem á safnið komu.
— SOFFÍA JÓHANNA — JÓLASÖGUR — JÓLIN — VINSÆLUSTU SMÁKÖKUUPPSKRIFTIRNAR —
.