Halldóra, Albert og Bergþór á Gistihúsinu á Egilsstöðum
Gistihúsið Egilsstöðum – Lake hotel
Það minnir dálítið á herragarð að koma á Gistihúsið á Egilsstöðum, staðsetningin við Lagarfljótið einstök, himinhá trén, blómleg sveitin allt um kring, en samt í göngufæri frá miðbæ Egilsstaða.
Framreiðslan á veitingunum var til fyrirmyndar, litfagur maturinn skreyttur með blómum úr nágrenninu þar sem sóleyjar og sigurskúfur voru mest áberandi. Það er afar ánægjulegt þegar veitingamenn leggja sig fram um að bjóða upp á hráefni úr næsta nágrenni. Á veitingastað Gistihússins, sem kallast Eldhúsið, er nautakjötið frá Egilsstaðabúinu, wasabíið er ræktað í Fellabæ, lynghænueggin koma frá Seyðisfirði svo nokkur dæmi séu nefnd. Auk fjölbreytts matseðils er hægt að velja þriggja rétta seðil sem kallast Beint frá býli.
Stökkar rísottóbollur með basil, chili, parmesan og chilitómatsósu.Nautaþynnur með jarðsveppamæjónesi, pikkluðum lauk, klettasalati, heslihnetum, fennel, parmesan og lynghænueggjum.Djúpsteikt sushirúlla með humar, döðlum, vorlauk, chili og basil. Með þessu var wasabi sem er ræktað á Héraði.Fiskur dagsins var bleikja með sætkartöflumauki, blómkáli, smælki og kaperssmjörsósu.Lambakóróna og hægeldaður frampartur með léttreyktum gulrótum, sólseljuspínatmauki, kartöflupressu, grænkáli og lambagljáa.Eftirréttirnir voru hver öðrum betri. Skyr-panna cotta með hindberjakrapís og bökuðu hvítu súkkulaði. Créme Bruleé með berjum Súkkulaði og karamella. Súkkulaðikaka með mysingskaramellu, pekanhnetum og espressósúkkulaðiís
Það er alltaf svo hlýlegt og notalegt í alla staði að koma á Gistihúsið á Egilsstöðum. Algjörlega fullkomin staðsetning við Lagarfljótið, í blómlegri sveit en samt steinsnar frá miðbæ Egilsstaða.Albert, Halldóra og Bergþór á svölum Gistihússins