
Fyrirlestur og kaffiboð hjá starfsbraut í FB
Í vikunni var ég beðinn að halda fyrirlestur hjá nemendum á starfsbraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Við ræddum um kurteisi, borðsiði, hvað gott er að hafa í huga þegar við höldum veislu og ýmislegt sem tengist því að vera gestur í veislu. Einnig var talað um hvernig við berum okkur að á veitingastöðum – svo eitthvað sé nefnt.
Umræður voru einstaklega líflegar og nemendur höfðu ekki minni áhuga á viðfangsefninu en fyrirlesarinn.
Á eftir buðu nemendur og kennarar í kaffi (sjá neðar í færslunni).
Klárlega bæði skemmtilegasti og líflegasti fyrirlestur sem ég hef haldið.
— FYRIRLESTRAR — FJÖLBRAUT Í BREIÐHOLTI — DAIMTERTUR — SMÁKÖKUR — FORMKÖKUR — DAIM —
.


Daim terta
Botn
3 eggjahvítur
2 dl sykur
Stífþeytið þar til sykurinn er vel uppleystur.
1 dl saxaðar möndlur (settar varlega saman við með sleif).
Þetta er bakað við 200°C í 30 mín, síðan er hitinn lækkaður í 100°C í 15-20 mín.
Ofan á
3 eggjarauður
¾ dl sykur
Þeytið saman eggjarauður og sykur í ca 10 mín.
2 pelar rjómi
Þeytið rjómann í annarri skál og hellið varlega út í eggja- og sykurblönduna.
Myljið 2 stk stór Daim og blandið saman við.
Kakan er sett í smelluform og fryst. Skreytið með berjum og Daimkúlum að vild.

Súkkulaðibitakökur
125 g smjör við stofuhita
150 g hrásykur eða púðursykur
1 stórt egg
1 tsk vanilludropar
110 g spelt hveiti
30 g haframjöl
40 g hveitiklíð
60 g kókosmjöl
1 tsk lyftiduft
½ tsk salt
150 g súkkulaði 70%, saxað
Hitið ofninn í 180°C. Hrærið varlega saman smjör og sykur. Bætið egginu út í ásamt vanilludropum og hrærið aðeins áfram. Setjið þurrefnin ásamt súkkulaðinu í skál, hrærið saman. Bætið hráefnunum varlega saman við smjör- og sykur blönduna.
Skiptið deiginu í 12-14 kökur og bakið í ca 10 mín.
ATH Kökurnar renna aðeins út.

Kakan hennar Birnu
Formkaka með súkkulaðibitum
100 gr smjörlíki við stofuhita
1 ½ dl sykur
1 stórt egg
3 ¼ dl hveiti
1 ½ tsk lyftiduft
1 tsk vanilluduft
1 msk + ½ dl mjólk
¾ dl dökkt súkkulaðikurl eða saxað súkkulaði
Hrærið smjörlíki og sykur saman með rafmagnsþeytara í sex mínútur á hæsta hraða, blandan á að vera létt og ljósgul.
Bætið eggjunum í, einu í senn og hrærið vel á milli. Munið að brjóta eggin I bolla fyrst.
Mælið allt annað í skál og blandið svo vel saman með sleikju.
Skiptið í tvö aflöng lítil kökuform. Passið að deigið klístrist ekki upp með hliðunum á formunum því þá brennur það meðan kakan bakast.
Bakið við 175°C, blástur í miðjum ofni, í 30-35 mín eða þangað til prjónn kemur hreinn út þegar honum er stungið í miðjar kökurnar.
–
— FYRIRLESTRAR — FJÖLBRAUT Í BREIÐHOLTI — DAIMTERTUR — SMÁKÖKUR — FORMKÖKUR — DAIM —
.