
Sveskju- og döðluterta
Þegar gesti ber að garði með stuttum fyrirvara er upplagt að útbúa hrátertu. Þessi terta er afar ljúffeng og auðvelt að búa hana til, tekur innan við tíu mínútur.
Einu sinni þegar ég útbjó þessa tertu var ekki til banani, þá setti ég eina ferska peru og 1/2 bolli af frosnum jarðarberjum. Ef eitthvað þá batnar tertan við það 🙂
— HRÁTERTUR — BANANAR — SVESKJUR — EFTIRRÉTTIR — KAFFIMEÐLÆTI —
.

Sveskju- og döðluterta
2 dl döðlur (leggið í bleyti ef þarf)
2 dl sveskjur
2 dl valhnetur
1 banani
2 dl kókosmjöl
safi úr 1/3 sítrónu
1/2 tsk vanillu extract eða 1 tsk vanillusykur
1/3 tsk salt
2 msk kókosolía – fljótandi
1 msk góð matarolía
1 msk vatn.
Saxið frekar smátt döðlur, sveskjur, valhnetur og banana og setjið í skál. Bætið út í kókosmjöli sítrónusafa, vanillu og salti. Blandið saman kókosolíu, matarolíu og vatni og setjið út í og hrærið vel saman. Látið í form, þjappið vel og kælið
krem
150 g gott dökkt súkkulaði
1 msk góð matarolía
Bræðið saman við lágan hita og hellið yfir kökuna.
Best finnst mér að setja kringlótt form beint á tertudisk, „deigið” ofan í og kremið á. Síðan er hún látin standa í nokkrar klukkustundir í ísskáp eða yfir nótt. Þá er heitum hníf rennt meðfram kökunni, formið tekið utan og voilà – dásamleg terta tilbúin

–
— HRÁTERTUR — BANANAR — SVESKJUR — EFTIRRÉTTIR — KAFFIMEÐLÆTI —
— SVESKJU- OG DÖÐLUTERTA. EIN SÚ ALLRA BESTA —
–
mmmmmm……. alltaf eitthvað gott að finna hér 🙂
Frábært Kastljós með ykkur í kvöld og áhugaverðar uppskriftir en við finnum ekki Uppskriftina af Döðlutertunni. Væri indælt að fá sent.
B.k. PTJ.
Blessaður Páll Trausti! Takk fyrir að horfa á þáttinn. Döðlutertan heitir víst Döðlukaka síðunni. Gangi þér vel að baka
http://www.alberteldar.com/2012/04/03/dodlukaka/
Sæll
Þessi kaka er yndislega góð. Fékk hana á miðvikudaginn var í bókaklúbb og naut hennar yfir Önnu Kareninu. Gerði hana svo sjálf tveimur dögum seinna, því mig langaði í meira…
Frábært. Man ekki eftir að hafa smakkað hráfæðisköku sem ég hef ekki verið ánægður með
Sæll, ætli sé hægt að sleppa sveskjunum og setja fíkjur í staðinn, líst alveg svakalega vel á þessa 🙂
Frábærlega góð kaka. Takk fyrir uppskriftina
Gaman að heyra, ótrúlega einföld og dásamlega góð 🙂
Sæll. Mig langar svo að gera þessa köku en var að spá í einu..er hún unnin í matvinnsluvél eða þjappar þú bara hráefnunum saman í höndum þangað til hún klístrast vel saman?
Góð hugmynd 🙂
Hún er ekki unnin í matvinnsluvél, bara saxa vel döðlur, banana, sveskjur og valhnetur og blanda svo restinni saman við. Gangi þér vel 🙂
Takk fyrir þetta, kakan er æðisleg! Sérstaklega gott að hafa banana og ferska keiminn af sítrónusafanum..svo skemmir ekki að það sé enginn viðbættur sykur 🙂
Sæll. Fljótandi kókosolia, er það bara það sama og lin kókosolia sem er í krukkunum?
Já það er sú sama. Það er ágætt að láta hana standa í heitu vatni í um 15-20 mín, þá verður hún fljótandi
Sæll, þar sem ég er ekki hrifin af kókos, get ég notað eitthvað annað í staðinn??
Kv.
Comments are closed.