Grillað lambalæri Kjartans
Eins og segir á síðu Matvælastofnunar, geta myndast óæskileg efni í mat við bruna, t.d. þegar grillað er. Þess vegna er mikilvægt að logar teygi sig ekki upp í það sem grilla á.
Til þess er tilvalið að grilla á „óbeinan“ (indirect barbecue) hátt. Hægt er að kaupa slík grill, t.d. þar sem kol eða gasbrennarar eru allt í kring, en ekki í miðjunni. Í sumum grillum er hægt að kveikja á tilteknu svæði og leggja það sem grilla á til hliðar við það. Þetta er hægari eldun, en væntanlega hollari. Hægeldað kjöt verður líka alltaf mýkra.
Hæg-grillað lambalæri er hreinasta afbragð. Gott er að taka lærið úr frosti nokkrum dögum áður og láta það þiðna í ísskáp, til að leyfa prótínunum að brotna svolítið niður. Best er að hafa kjöt (allt kjöt) við stofuhita þegar það er steikt. Kjartan Örn lætur lítið til sín taka í eldamennsku í eldhúsinu, en er þess fljótari að fara um eins og stormsveipur eftir matinn og taka til. Þegar komið er út á verönd, breytist hann aftur á móti í listakokk og grillar allt milli himins og jarðar. Þetta er nefnilega hans svæði, þótt frúin eigi eldhúsið.
Hann sýndi snilli sína á grillinu og eldaði stórt læri þannig að það var safaríkt og mjúkt. Kjötið tók hann úr ísskápnum um morguninn.
— KJARTAN ÖRN — LAMBAKJÖT — GRILL — LAMBALÆRI —
.
Grillað lambalæri Kjartans
1 msk oregano
3 hvítlauksrif
2 tsk möluð korianderfræ
11/2 msk kúmmín
11/2 msk gróft sjávarsalt
1/2 msk ferskur malaður pipar
1/2 msk allrahanda
1/4 msk malaðar kardimommur
1/4 msk túrmerik
Blandið kryddinu saman og nuddið á lambalærið. Grillið á óbeinan hátt í 1 1/2 tíma, óinnpakkað. Eftir það er því pakkað í álpappír og látið standa í u.þ.b. 15-20 mínútur. Tilbúið. Þetta var borið fram með steiktum kartöflum í rósmarín, þýsku gúrkusalati, spínatpestói og gratineruðu blómkáli.
.
— KJARTAN ÖRN — LAMBAKJÖT — GRILL — LAMBALÆRI —
— GRILLAÐ LAMBALÆRI KJARTANS —
.