
Silungur með mangóchutney og pistasíuhnetum
Það er vandasamt að elda fisk þannig að hann verði akkúrat rétt eldaður – hvorki of hrár né of þurr. Þetta er ekki spurning um mínútur heldur næstum því sekúndur. Þegar það tekst, verður fiskur hins vegar alveg óviðjafnanlegur.
Hildur Ýr og Páll Björgvin í Neskaupstað buðu Sætabrauðsdrengjunum í mat og báru þar fram silung sem var hárnákvæmlega eldaður, safaríkur og bragðmikill. Með honum var ferskt salat og einföld en snjöll blanda af mangóchutney og pistasíuhnetum sem gaf réttinum bæði sætu, ferskleika og fallega áferð.
Þetta er réttur sem er jafn fallegur á diski og hann er ljúffengur.
— HILDUR ÝR — SILUNGUR — NESKAUPSTAÐUR —
.

Silungur með mangóchutney og pistasíuhnetum.
2 dl pistasíuhnetur
2 tsk pipar, svartur
1400 g silungur
2 dl kóriander
2 stk lime
2 tsk salt
Maldon salt
8 msk mango chutney
Hitið ofninn í 180°C.
Leggið silungsflökin í eldfast mót, dreypið límónusafa yfir og kryddið með salti og pipar.
Smyrjið mangóchutney jafnt yfir flökin.
Stráið pistasíuhnetum yfir – ekki endilega öllum, gott er að geyma hluta til að bera fram með.
Bakið í 10–15 mínútur, fer eftir þykkt flakanna. Fiskurinn á að vera rétt orðinn matreiddur og enn safaríkur.
Stráið saxaðri kóríander yfir rétt fyrir framreiðslu og klárið með örlitlu Maldon-salti.
Ég notaði ekki allt kóríanderið og hneturnar heldur setti hluta þeirra í skál á borðið – þannig getur hver og einn bætt við eftir smekk.
Meðlæti og sósa
Berið fiskinn fram með fersku, grænu salati og einfaldri sósu:
sýrður rjómi
smá mangóchutney
límónusafi
salt og pipar
saxaður kóríander
Hlutföll eru ekki heilög – smakkaðu þig áfram þar til jafnvægið milli sætunnar, sýrunnar og ferskleikans er rétt.


— HILDUR ÝR — SILUNGUR — NESKAUPSTAÐUR —
.


Þessi Silungur er rosalega góður. Notaði reyndar möndluflögur í staðinn fyrir pistasíur, sem kom bara mjög vel út. Takk fyrir mig 🙂
Comments are closed.