Pistasíusmákökur. Þegar ég kom heim úr vinnunni lagði bakstursilminn úr á götu, Bergþór minn stóð í stórræðum og bakaði pistasíusmákökur að miklum móð til að bjóða sameikurum sínum í Borgarleikhúsinu upp á að lokinni sýningu í kvöld. Í upphaflegu uppskriftinni er tekið fram að þessar smákökur geymist vel við góðar aðstæður í amk þrjár vikur – en til þess kemur nú varla þar sem það er algjör óþarfi að baka smákökurnar til að geyma þær. Ef smjör er látið vera á borði, verður það ólystugt eftir stuttan tíma. Oft er smjör í smákökum og um þær gildir því það sama. Miklu betra að baka og bjóða einhverum skemmtilegum í kaffi 🙂
Pistasíusmákökur
250 g smjör, mjúkt
2/3 b flórsykur
1/2 tsk vanilluextrakt
1 tsk sítrónubörkur
1/3 b pistasíuhnetur, saxaðar
2 1/4 b hveiti
1/3 b hrísmjöl
1 tsk kardimommudropar
1/2 tsk salt
Þeytið vel saman smjöri, sykri og vanillu, blandið saman við sítrónuberki, pistasíum, hveiti, hrísmjöli, kardimommum og salti og hrærið með sleif. Setjið filmu yfir og geymið í ísskáp í um 30 mín. Mótið kúlur með höndum, u.þ.b. teskeiðarstærð, setjið á bökunarpappírsklædda plötu og bakið í um 15 mín við 170°, en eins og alltaf eru ofnar ákaflega misjafnir og rétt að hafa auga með þeim. Þær renna ekki út, þannig að það má alveg setja nokkuð þétt á plötuna.