Ansjósupasta. Hér er spænsk verðlaunauppskrift, skilyrðið í keppninni var að hafa pasta og ansjósur. Enn þann dag í dag man ég vel þegar ég bragðaði ansjósur í fyrsta skipti, ekki líkaði mér nú bragðið og hét því að leggja þennan óþverra aldrei mér til munns aftur. En nú er öldin önnur og mér finnast ansjósur mjög góðar.
Ansjósupasta
500 g pasta
1/2 laukur
3 hvítlauksrif, söxuð fínt
olía til steikingar
1 dl ansjósur
5-6 tómatar, saxaðir gróft
7-8 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir gróft
2 msk tómatpúrée
smá cayanne
1 dl rauðvín
ca 20 ólífur
steinselja
Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum, hellið vatninu af og skolið. Steikið lauk og hvítlauk í olíu á pönnu, bætið við ansjónunum (og olíunni af þeim) og látið þær bráðna á pönnunni. Setjið tómata, sólþurrkaða tómata, tómatpúrée, cayanne og rauðvín og látið sjóða í um fimm mín. Bætið síðast við pasta og ólífum. Blandið vel saman og stráið loks steinselju yfir.