Möndlu- og eplaterta
Þessi uppskrift birtist í jólablaði Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum, lengi vel var hún í miklu uppáhaldi enda með eindæmum ljúffeng. Því miður man ég ekki hvaðan uppskriftin er fengin en kæmi mér ekki á óvart þó hún væri komin úr fjölmörgum uppskriftabókum og blöðum móður minnar.
Möndlu- og eplaterta
150 g smjör
200 g sykur
3 egg
150 g saxaðar möndlur
2 1/2 dl hveiti
1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
Hrærið vel saman smjör og sykur, bætið eggjunum saman við einu og einu í einu. Setjið loks möndlur, hveiti, lyftiduft, olíu og salt og hrærið áfram um stund. Bakið í tveimur kringlóttum formum í 170° heitum ofni í um 25-30 mín. Látið kólna
Fylling
1 stórt epli
1 dl sérrí
1 askja maskarpone
1/2 b sykur
1 peli rjómi – þeyttur
3 msk. blönduð ávaxtasulta
Afhýðið eplin og skerið þau frekar smátt. Sjóðið þau ásamt helmingnum af sykrinum og sérríinu í um 15 mín. eða þangað til þau eru soðin, maukið með píski. Kælið. Blandið maskarpone saman við þeytta rjómann og loks eplamaukinu. Setjið annan botninn á tertudisk og utan um hann hringinn af tertufrominu. Látið eplarjómann á botninn. Setjið ávaxtasultuna þar ofna á og loks hinn botninn. Geymið í ísskáp í nokkrar klst, eða yfir nótt. Losið hringinn með því að renna heitum hníf í kring.
Skreyting
1 peli rjómi – stífþeyttur
ávextir, möndluflögur og súkkulaði að vild.