Aukagestur/gestir í boð, er það í lagi?
Það ætti nú varla að þurfa að taka það fram en við tökum ekki með okkur aukagesti í boð. Gestgjafinn ákveður hvaða gestir koma til hans, það er ekki í okkar höndum. Það gildir einu hvers konar boð er, hvort er setið til borðs, standandi boð, afmæli eða giftingarveislu. Auðvitað þarf sá sem býður að tala skýrt svo gestum sé ljóst hverjum er boðið, er t.d. börnunum boðið?
Hið sama á við ef fólk er beðið að merkja við í hópum á fasbókinni eða annarsstaðar. Við látum vita þar hvort við komum eða ekki.
Ímyndið ykkur bara ef þið væruð með matarboð, væruð búin að leggja á fyrir alla gestina og tilbúin með matinn ef kannski einhverjir hafa ákveðið á síðustu stundu að kippa með sér bestu vinum sínum….
Ekki í boði að taka með sér aukagesti.
Ef kunningsskapurinn er ekki því meiri og þá aðeins ef við teljum einsýnt að gestgjafanum sé sérstök ánægja að því. Þá hringjum við auðvitað áður og heyrum í honum hljóðið.
Setjum ekki gestgjafa í erfiða aðstöðu með því að hringja á síðustu stundu og spyrja hvort góður vinur eða vinkona megi ekki örugglega koma með.
.
— BORÐSIÐAFÆRSLUR — KAFFI — FASBÓK —
— AUKAGESTIR Í BOÐI, ER ÞAÐ Í LAGI ? —
.