Bazaar Oddsson veitingahús. Veitingastaðurinn Bazaar er á jarðhæðinni í JL húsinu, en á efri hæðum er Oddsson hótel/hostel sem opnaði í sumar. Bazaar er stór og rúmgóður veitingastaður og kaffihús. Staðurinn skiptist í fjögur svæði, kaffihús, bistro, bar og fínni restaurant. Inn af veitingastaðnum er karókí herbergi sem vinsælt er hjá litlum og stórum hópum. Ég er aðeins kominn yfir þann aldur að fíla þetta í botn, en unga fólkið sem var á staðnum lét sér vel líka.
Töff staður, að hluta til örlítið hrár en hlýr, minnir svolítið á KEX konseptið, bara með flottri hönnun. Áhugaverð blanda sem gengur upp, notaleg sæti og vandaðar innréttingar á móti upplyftu lofti með gráum steininum skapa skemmtilegar andstæður. Einmitt það sem er hipp og kúl í dag. Það er vel þess virði fyrir alla þá sem hafa áhuga á hönnun að skoða sig um á Bazaar og njóta í leiðinni góðra veitinga.
Útsýnið er hluti af heildarmyndinni. Fyrsta haustlægðin sá um listina úti, hvítfextar öldur dönsuðu á Faxaflóanum og skýin streymdu niður af Esjunni eins og hvítt og létt tertukrem. Þegar við komum út eftir velheppnaða heimsókn stigu norðurljósin tígulegan og óútreiknanlegan dans á himninum.
Borðvínin koma öll frá Ítalíu og stefnan er að hafa vín frá öllum héruðum landsins. Af vínseðlinum má sjá að þar er metnaðarfullt úrval góðra ítalskra vína. Við fengum hvítvín og rauðvín hússins með matnum.
Innst í salnum er eldhúsið og í gegnum gler er hægt að fylgjast með matreiðslumönnunum að störfum. Yfirmatreiðslumaður á Bazaar er Eyþór Rúnarsson fyrrverandi fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins. Við óskuðum eftir óvissuferð með honum úr eldhúsinu og fengum bragðgóða Miðjarðarhafsstemningu, fallega framreidda.
Fyrir matinn var rósmarínbrauð sem við dýfðum í góða ólífuolíu, sem er auðvitað sérinnflutt. Það er bara alls ekki sama ólífuolía og ólífuolía. Eiginlega eiga þær stöllur ekkert skylt nema nafnið.
Parmaskinka og burrata með steiktum jarðskokkum, klettasalati og balsamiki
Sveppasúpa. Undurgóð sælusveppavellíðan þaut um líkamann. Vegan sveppasúpa.
Andaconfit Cannelloni með brúnuðu sellerírótamauki, reyktum möndlum, tamarillo og pikkluðum lauk. Dásamlega gott og músin alveg lungnamjúk.
Kolkrabbi með piparrót, kapers, sítrónu og súrsuðum gulrótum. Minnist þess ekki að hafa smakkað kolkrabba áður. Hann er bæði mjúkur og ljúffengur og samsetningin með piparrótinni og kapers var snilld.
Nautalund með ostrusveppum, grilluðum aspas, kartöflumús með chorizo og tómatavinaigrette. Nautalundin bráðnaði í munni, hárrétt elduð og ekki of mikið af henni. Fólk er oft hvatt til þess að taka fram hvernig það vill hafa steikina, en mín reynsla er sú, að ef kokkurinn er góður veit hann nákvæmlega hvernig steikin er best í það og það skiptið, þannig að betra er að láta hann um að velja steikingartímann.
Gulróta- og kúrbítssteik með aspas, jarðskokkum, vatnakarsa og reyktri möndluolíu. Það fer ekkert milli mála að yfirkokkurinn er jafnvígur á „venjulegan” mat og vegan fæði.
Lakkrís panna cotta með kirsuberjasósu, súkkulaðikexi og perusorbet. Kannski helst til of lítið lakkrísbragð fyrir minn smekk en panna cotta stendur alltaf fyrir sínu. Tja, ef hún er góð.
Tiramisu með amaretto og kaffiís. Já þessi kaffiís fékk alveg fullt hús, helst af öllu hefði ég viljað fá ábót af honum….
Döðlu- og valhnetukaka með karamellusósu og vanilluís. Mæli með þessari köku. Það er ég viss um að í henni eru ítalskar extragóðar sérvaldar döðlur. Já og ísinn var líka hrikalega góður. Með eftirréttunum fengum við góðan ítalskan espressó.
Texti: Albert Eiríksson albert.eiriksson (hjá) gmail.com
Myndir: Bragi Bergþórsson