Silva – fagurgrænn og stórfínn staður

Silva – fagurgrænn og stórfínn staður Kristín

SILVA í Eyjafjarðarsveit. Fyrsta skipti sem ég smakkaði ferskan engifersafa var á Silvu fljótlega eftir að staðurinn opnaði – ég gleymi því aldrei. Kristín tók ráðin í sínar hendur eftir að heilsu hennar fór að hraka, fór á námskeið um áhrif matar, fór í heilsuskóla og eftir að hafa náð heilsu á ný (með hollu og góðu grænmeti) opnaði  hún Silvu árið 2012, og nokkrum árum seinna var farið að bjóða upp á gistingu. Eftir þetta sumar verður breyting á rekstrinum og þá ætlar Kristín og hennar góða aðstoðarfólk að taka á móti hópum í mat – eins og hún hefur reyndar gert frá upphafi.

Kristín Albert

Veitingastaðurinn Silva er steinsnar frá Akureyri til þess að gera og vel þess virði að fá sér bíltúr þaðan, enda er sveitin ægifögur og umhverfið búsældarlegt, blómlegt og minnir svolítið á heitari lönd.

Vörur frá Silvu verða seldar í Matarbúri Kaju við Óðinsgötu, en á Akureyri í Flóru, FISK Kompaní og Átaki.

Salat, brauð og súpa í forrétt. Stökka vegan kexið er endurnýtt hrat úr drykkjum og hristingum. Það eru fjórar tegundir af nýpressuðum safa auk engiferskots, hver öðrum heilnæmari og betri, en fimm tegundir af hristingum.

Daglega er boðið upp á súpu dagsins sem þó er aldrei sú sama tvo daga í röð. Við fengum ljúffenga indverska karrí-kjúklingabaunasúpa með kúrbít, papriku, lauk, sellerí og chili.

Heitur appelsínu, sítrónu og engiferdrykkur.

Heitur appelsínu, sítrónu og engiferdrykkur.
Við fengum blandaðan disk af aðalréttum, hnetusteik með sveppasósu, kínóafyllta papriku, hráfæðis-pizzu og grænmetisbuff með turmeriksósu.

grænmetisborgari

Þá fengum við grænmetisborgara og vefju með sinnepi, mangósósu, osti og grænmeti.

Allt var mjög fallegt á litinn og smekklega fram borið. Best var hráfæðispizzan og vefjan með sinnepssósunni. Þegar hér var komið við sögu vorum búnir að borða á okkur gat en þá komu eftirréttirnir – og eins og allir vita er alltaf pláss fyrir „smá” eftirrétt(i)

Piparmintublóm og appelsínuhjarta, vegan hindberjaís, lime terta með fræ-hnetubotni og karamellukaka

Eftirréttir: Piparmintublóm og appelsínuhjarta, vegan hindberjaís, lime terta með fræ-hnetubotni og karamellukaka (hnetusmjörsbotn með trönuberjum, fræjum og hnetum) með karamellukremi og súkkulaðisósu ofan á. Hvert öðru betra.

 

 

Pizzubotnar hráfæði

1 haus lífrænt blómkál kurlað í matvinnsluvél

2 ½ bolli malaðar valhnetur

1 ½ kúrbítur kurlaður í matvinnsluvél

1 bolli möluð gul hörfræ

1 bolli möluð sólblómafræ

½ bolli hampfræ

1 msk salt

1 msk oregano

½ tsk heitt pizzakrydd

Allt sett saman í stóra skál og blandað vel saman.
Smurt á þurrkofnsplötur í þeirri þykkt sem óskað er eftir. Skerið 2 línur langsum og 2 þversum þannig að það myndist 9 partar.
Þurrkað í 1 klst við mesta hita, lækkað í 115°F og þurrkað áfram í 8 klst.
Botnunum snúið og filman tekin af. Þurrkað áfram í 10 klst eða þar til þeir eru orðnir þurrir. Geymast mánuðum saman á köldum og þurrum stað, t.d. í bréfpoka.

Mangó salsa

1 bolli saxað mangó

1 bolli saxaður ananas

2 msk sítrónusafi

1 ½ tsk eplaedik

2 msk gróft sinnep

¼ tsk salt

3 hvítlauksgeirar, pressaðir

1 búnt kóríanderblöð, söxuð

¼ bolli söxuð rauð paprika

¼ bolli saxaður blaðlaukur

¼ tsk cayenne pipar

Aðferð: blandið öllu vel saman. Geymist í loftþéttu íláti í ísskáp í 5-6 daga.

Valhnetumauk

3 bollar grófmalaðar valhnetur (líta út eins og hakk)

3 tsk malað cumin

1 tsk malað kóríander

½ dl tamarisósa

Aðferð: Öllu blandað vel saman. Geymist í loftþéttu íláti í ísskáp í mánuð.

 

Hráfæðipizza Silvu

Pizzubotninn er smurður með grænu pestói.

Salatblað sett ofan á

Síðan þverskornar tómatsneiðar.

Rautt pestó ofan á tómatinn

Vel af mangósalsa þar ofan á.

Þetta er síðan toppað með valhnetukurli og næringargeri.

 

 

Karmellukaka

Stór uppskrift

Botn:

1 bolli möndlur

1 bolli valhnetur

100 gr pekanhnetur-

Sett í matvinnsluvélina og malað gróft-

Bætt út í:

1 bolli möndlumjöl (eða þurrkað hrat af möndlumjólk)

1 ½ krukka fínt hnetusmjör

2 bollar döðlur

½ bolli gráfíkjur

1 bolli trönuber

Kúfuð msk kókosolía

1 msk macaduft (má sleppa)

1 tsk vanilla

¼ tsk bleikt salt

Aðferð:Látið vélina ganga þar til þetta er orðið að samanklesstu deigi. Búið til hringlaga kökur í þeirri stærð sem þið óskið, eða 1 stóran botn. Sett í frost á meðan fyllingin er búin til.

Karmella

½ bolli agave

½ bolli hlynsíróp

1/3 bolli kókosolía

1 ½ krukka gróft hnetusmjör

½ tsk bleikt, gróft salt

1 tsk kakóduft

1 tsk karmellustevia

Aðferð:Allt sett í matvinnsluvélina og blandað vel saman á lágum hraða. Ekki láta vélina ganga of lengi, þá skilur olían sig frá. Setjið 1-1 ½ msk ofan á hvern botn. Frystið aftur á meðan súkkulaðið er útbúið. Það er best að karmellan sé alveg frosin áður en súkkulaðið er sett á því þá storknar það strax en lekur ekki allt í burtu.

Súkkulaði

1 bolli kókosolía (fljótandi)

1 bolli kakó

¼ tsk súkkulaðistevia

½ dl agave

Blandið öllu vel saman í skál. – Þekið hverja köku með súkkulaðinu.

 

Laukborgarar

12 gulir laukar sem búið er að mauka í matvinnsluvélinni

3 bollar mulin hörfræ

3 bollar mulin sólblómafræ

1 ½ bolli tamarisósa1 bolli olía

Blandið öllu vel saman – dreifið á þurrkofnsplötur (3-4) (með teflexblaði).

Þurrkið í 12 klst við 115°F

Snúið og þurrkað áfram í 12 klst.

 

Límónukaka

Botn:

3 bollar apríkósur

1 bollur döðlur (meira ef deigið festist ekki saman)

½ bolli sólblómafræ

¼ bolli hampfræ

Aðferð:

Allt sett í matvinnsluvélina og unnið vel saman. Þjappað vel ofan í botninn á kökudisk/form. Frystið

Fyllingin/ískakan

2 bollar kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst (ca)

Tæplega 1 bolli læme safi (6 stk)

¾ bolli agave

¾ bolli kókosolia

¼ tsk vanilluduft

Aðferð:
Allt sett í blandarann og púlsað saman þar til komin er fín soppa.
Hellt yfir frosinn botninn. Fryst. Tekið úr forminu, hvolft á bretti og sett á fallegan kökudisk.

 

Glútein- og gerlaus hamborgarabrauð

1 ½ bolli glúteinlaust mjöl

2 tsk lyftiduft

½ tsk matarsódi

¾ tsk salt

1 msk agave síróp

4 msk rísmjólk eða önnur jurtamjólk

½ bolli aquafaba (vatnið af kjúklingabaunum í dós/krukku)

1 tsk eplaedik

1 msk oregano

½ dl rifnar sætar kartöflur eða gulrætur

1. Hitið ofninn í 200°C.

2. Blandið saman aquafaba, agave, eplaediki og rísmjólk. Þeytið saman þar til það fer að freyða.

3. Blandið saman þurru innihaldsefnunum í skál: glúteinlausa mjölinu, lyftidufti, matarsóda, oregano og salti. Gerið holu í miðjunni og setjið sætu kartöflurnar þar í.

4. Blauta efnið sett varlega út í og blandað saman. Passa að hræra ekki of lengi því þá verður deigið seigt.

5. Mótið hamborgarabrauð á bökunarplötu með bökunarpappír (silikon er best). Við notum ískúluskeið til að setja deigið á plötuna.

6. Penslið brauðin með smá rísmjólk og stráið uppáhalds saltinu eða kryddinu ykkar yfir (við notum timían salt frá Saltverk).

7. Bakað í 10-15 mínútur.
Ath: Þegar brauðið er notað skerum við það í sundur, penslum innri hliðarnar með ólífuolíu og grillum það í 2-3 mínútur.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.