Blóðhreinsandi og mjög hressandi drykkur. Við að halda matardagbók sér maður svart á hvítu hvað það er sem er borðað. Núna veit ég t.d. að ég borða mun minni fisk en ég hélt, drekk um fjóra kaffibolla á dag og drekk rúman lítra af vatni. Ekki bara það,ég tek frekar eftir áhrifum sem matur hefur á mig – ég hlusta enn betur á líkamann.
Í gær útbjó ég Pavlóvu með sítrónusmjöri og extra miklum ávöxtum – Þegar gestirnir voru farnir gúffaði ég í mig restinni af tertunni og leið ekkert sérstaklega vel af.
Eitt af því fyrsta sem Elísabet næringarfræðingur hvatti mig breyta var að taka inn lýsi og blóðhreinsandi drykk á hverjum morgni. Satt best að segja varð mér ekki um sel þegar ég sá hvað er í honum en lét slag standa og bretti upp ermar… Það rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði séð svona drykk í skrifum Hallgríms heitins Magnússonar læknis og e.t.v. fleiri. Fyrst var ég með nokkur korn af caynne pipar en núna er ég kominn upp í þriðjung úr teskeið. Drykkurinn er mjög hressandi og maður finnur hvernig blóðið flæðir um æðarnar af enn meiri krafti en áður – ég hvet ykkur til að prófa, amk í nokkra daga (helst lengur).
Blóðhreinsandi og mjög hressandi drykkur
Volgt vatn, ca 2 dl
1/3 tsk cayenne pipar
1 tsk sítrónusafi
1/2 – 1 tsk ólífuolía
Setjið í glas, hrærið í með teskeið og drekki í einum sopa 🙂