Steypiboðstertan
Vinkonur Jóhönnu frænku minnar komu henni á óvænt með Baby Shower boði sem kallast Steypiboð á íslensku. Meðal góðra kaffiveitinga þar var þessi góða og fallega terta. Það þarf ekki alltaf að flækja málin, vel má bjarga sér á pakkatertum eins og frá Betty Crocker eins og gert er hér. Saltkaramellusmjörkrem, sem er alveg himneskt, á milli, á hliðarnar og ofan á. Ofan á það fór svo bleikt súkkulaði frá Allt í köku.
— JÓHANNA SIGRÍÐUR — BETTY CROCKER —
.
Steypiboðstertan
1 pk Betty Crocker súkkulaðiterta. Bökuð eftir upplýsingum á pakkanum
Saltkaramellu-smjörkrem
½ bolli púðursykur
½ bolli smjör
2 msk sýróp
½ bolli rjómi (fer eftir smekk)
1 klípa gróft salt
1 bolli smjör, mjúkt
2 bollar flórsykur
1 msk vanillusykur
Karamella – Bræðið púðursykur, smjör og sýróp í potti á meðalhita, þar til blandan fer að sjóða. Hrærið í nokkrar mín og látið kólna. Blandið salti og rjóma saman við í smá skömmtum.
Þeytið smjör, flórsykur og vanillusykur saman þar til blandan verður ljós. Blandið karamellu smám saman við smjörkremið.
Hægt að geyma smá karamellu til að skreyta kökuna.
Bakið kökuna í 23,5 cm formi. Látið kólna.
Útbúið tvöfalda uppskrift af kreminu. Skerið tertubotninn í tvennt, setjið krem á annan botnin, hinn botninn ofan á og loks krem ofan á og á hliðarnar.
Bræðið bleika súkkulaðið, hrærið saman við ca msk. af kókosolíu. Smyrjið þessu yfir kökuna, yfir kremið.
Skreytið hliðarnar með Kit Kat.
— JÓHANNA SIGRÍÐUR — BETTY CROCKER —
.