Matarborgin Prag
Eitt af því skemmtilegasta sem ég veit er að prófa nýja rétti og bragða fjölbreyttan mat í ólíkum löndum. Eftir ævintýralega skemmtilega ferð til Búdapest vorum við beðnir af Heimsferðum að fara í nokkrar borgarferðir og leggja áherslu á það besta í mat sem hver borg hefur uppá að bjóða.
Tékkar eru meðal annars frægir fyrir bjór, við gerðum hins vegar tékkneskum mat góð skil og nutum frá morgni til kvölds. Eins og í öllum stórum borgum er um óteljandi veitingahús að velja, en með tilkomu netsins hefur nútímafólk aðgang að upplýsingum, t.d. á foursquare og tripadvisor, sem áður voru aðeins á færi heimamanna. Þetta er góð aðferð því daglega breytast einkunnir og annað eftir því sem fleiri skrifa færslur. Þegar maður hittir ferðamenn á Íslandi, eru þeir gjarnan búnir að skanna veitingahúsaflóruna og eru upplýstari en við sem þó búum þar.
Alltaf er þægilegt að skanna veitingastaði í grenndinni, en í stórborgum er reyndin þó oft sú að þar sem ferðamenn fara mest um, hækkar verðið, en gæðin ekki í samræmi við það. Það getur því verið gott að leita aðeins út fyrir. Í Prag er startgjald leigubíla í kringum 50 tékkn. krónur (eða 250 ísl. kr.) svo að það er lítið mál að hoppa upp í þá, t.d. AAA.
Gaman er að prófa götumatinn, street food, eins og Trdlnik, pylsurnar, smárétti o.s.frv., en í stað þess að grípa pizzu eða aðra hálf-magafylli hér og þar borða hagsýnir frekar vel af morgunmat og setja stefnuna síðdegis eða að kvöldi á veitingahús í dýrari kantinum, til að njóta lífsins til fulls. Sem dæmi er mjög gaman að eiga erindi norður fyrir Gamlabæjartorgið (Staroměstské náměstí), The Field er t.d. Michelin staður á horninu á U Milosrdných og Kozí.
— MATARBORGIR — PRAG —
.
Í hverfinu er gaman að eigra um, í grenndinni eru t.d. áhugaverðar matarbúðir, eins og Masna, bakarí, t.d. Gourmand, og home kitchen, kósí staður fyrir fljótlegan málsverð á góðu verði o.m.fl.
Þjóðlegur matur í Prag. Það er nú eiginlega ekki hægt að heimsækja borg eða land án þess að bragða á nokkrum þjóðlegum réttum. Hópur Íslendinga tók sig saman og fór á tékkneskan stað og fékk þar hvern gæðaréttinn á eftir öðrum. Af þjóðlegum mat í Prag má nefna gúllas, snitsel, kanínur, dádýr, allsskonar pylsur, svínakjöt, endur. Á diskinum má svo búast við að sjá „dumplings“, rauðkál, hvítkál og kartöflur.
Artic bakehouse.
Við eigum góð bakarí á Íslandi og gerum því kröfur. Raunar fannst okkur íslenska bakaríið í Prag, Artic bakehouse bera af þeim bakaríum sem við komum í í Prag, en þar hittum við Davíð Arnórsson og Guðbjart Guðbjartsson. Davíð opnaði bakaríið fyrr á þessu ári og það þarf nú varla að taka það fram að bestu brauðin og kaffimeðlætið eru þar. Allir Íslendingar sem fara til Prag ættu að gera sér ferð þangað. Við landar hans ættum að hjálpa til við að auka velegngnina með því að gefa honum góða einkunn á TripAdvisor eða á öðrum slíkum síðum.
Lounge Café
Við Íslendingar erum vön svo góðum kaffihúsum að það getur verið erfitt fyrir kaffinörda að fara annað, amk fannst okkur kaffið víða í Prag svona lala. Rétt hjá Artic bakehouse er Lounge Café – þar er gott kaffi, kannski það besta sem við fengum á hefðbundnu kaffihúsi. Kókoslummurnar með hindberjasósu og sýrðum rjóma brögðuðust líka vel.
Fyrir þá sem eru vanir gæðum eins og á Te og kaffi eða Kaffitári, þarf aðeins að snusa í kringum sig, en hægt er að mæla með kaffinu á ema espresso bar á Na Florenci 3.
Þar er líka að finna dæmigert tékkneskt bakkelsi, eins og koláč og Buchta.
Við fórum með afar hressan hóp í göngu um borgina. Það var stoppað á fjölmörgum stöðum og eitt og annað smakkað. Göngunni lauk á einu fallegasta kaffihúsinu, Café Louvre.
Trdelník er eitt frægasta brauðmetið í Tékklandi, það mun þó upphaflega koma frá Ungverjalandi, en er selt víða á götum úti í Prag, enda má segja að matarmenning í Ungverjalandi, Austurríki, Tékk og Sló sé mikið blönduð. Deigi er snúið upp á sívalning og síðan bakað á glóðum. Að því búnu er nýbökuðum hólknum velt upp úr blöndu af sykri, hnetum og kanil. Loks er sett í fylling sem getur verið Nutella, ís, ávextir, krem eða rjómi.
Skemmtisigling um Moldá
Það er eftirminnilegt að sigla um Moldá. Eldhress hópur fimmtugra manna ásamt eiginkonum leigði sér bát og bauð okkur Bergþóri með í eftirminnilega ferð undir fjölmargar brýr borgarinnar. Íslenska bakaríið í borginni útbjó veitingar síðan var farið leiki og sungið svo undir tók í nærliggjandi byggingum.
Á The President hótelinu er mjög góður veitingastaður sem kallast Elements sem þessi föngulegi hópur fór á. Góð þjónusta, fallegt umhverfi og góður matur einkenndu staðinn. Þau fengu meðal annars kóngarækjur, villisvín, dádýr og páfugl.
Þeir staðir sem eru nefndir hér eru engan vegin tæmandi eða draga upp heildarmynd af veitinga- og kaffihúsaflórunni í Prag.
— MATARBORGIR — PRAG —
–