BÚDAPEST
Það segir þó nokkuð um borg/land ef maður fer þangað tvisvar á sama árinu. Sléttum sex mánuðum eftir að við fórum til Búdapest var haldið aftur þangað á vegum Heimsferða. Að þessu sinni fórum við Bergþór með hóp út að borða og annan í matargönguferð um miðborgina. Ótrúlega fjölbreytt matarborg sem kemur endalaust á óvart.
— BÚDAPEST — MATARBORGIR — MATARGÖNGUR —
.

.

Gundel Restaurant. Á afmælisdegi Bergþórs var snætt á hinum fræga Gundel veitingastað. Þegar leið á æfina fékk tónskáldið Rossini svo mikinn áhuga á mat að hann hætti að semja tónlist og fór að semja uppskriftir. Á Gundel fékk ég í fyrsta skipti Turnbauta Rossini, smjörsteikta nautasteik með andalifur ofan á.

Gundel pönnukökur
Einn af frægustu eftirréttum Ungverja eru Gundel pönnukökur. Rommflamberaðar pönnukökur með fyllingu úr valhnetum, rúsínum og fleiru góðu. Yfir þetta er hellt vel af hnausþykkri súkkulaðisósu.

Matarganga um Búdapest. Þessi vaski hópur fór með okkur í matargöngu um miðborg Búdapest. Við stoppuðum á fjölmörgum stöðum og smökkuðum eitt og annað sem gladdi munn og maga.

Út að borða í Búdapest. Fátt er skemmtilegra en fara með glöðu og kátu fólki út að borða. Saman völdum við stórfínan stað þar sem áherslan var á ungverskan mat.

Sextugar dömur á New York Café. Sjö kvenna hópur hefur allt þetta ár haldið upp á sextugsafmælin sín. Hluti af fjölbreyttri afmælisdagskrá þeirra var ferð til Búdapest, við fórum með þeim á hið ægifagra kaffihús New York Café og drukkum þar Afternoon tea. Kaffihúsið hefur verið valið fallegasta kaffihús í heimi.

Kurtos kolacs er eitt frægasta brauðmetið í Ungverjalandi, en er selt víða á götum úti í Búdapest. Deigi er snúið upp á sívalning og síðan bakað á glóðum. Að því búnu er nýbökuðum hólknum velt upp úr blöndu af sykri, hnetum og kanil. Loks er sett í fylling sem getur verið Nutella, ís, ávextir, krem eða rjómi.
— BÚDAPEST — MATARBORGIR — MATARGÖNGUR —
.