Smákökusamkeppni Kornax 2018 – 4 bestu smákökurnar

Smákökusamkeppni, Kornax, smákökur, Elenóra Rós, Carola, Ásdís Hjálmtýsdóttir
Lítið brot af öllum þeim kökum sem bárust í smákökusamkeppni Kornax

Smákökusamkeppni Kornax 2018 – 4 bestu smákökurnar. Vel á annað hundrað smákökur bárust í smákökusamkeppni Kornax í ár. Eins og áður skiluðu keppendur inn kökum undir dunefni og nafn höfundar fylgdi með í lokuðu umslagi. Sérstaklega gaman að segja frá því að Carola vinkona mín sigraði með glæsibrag, í öðru sæti keppninnar varð Ásdís Hjálmtýsdóttir (sem er reyndar líka vinkona mín) með Appelsínueftirlæti og í þriðja sæti varð Elenóra Rós með kökur sem heita Stúfur bakari. Í fjórða sæti varð Andrea Jónsdóttir með kökur sem hún kallar Heims um ból.

SJÁ EINNIG: SMÁKÖKURJÓLIN JÓLIN

Vinningshafarnir: Elenóra, Carola Ida köhler og Ásdís hjálmtýsdóttir
Vinningshafarnir: Elenóra, Carola Ida og Ásdís

1. sæti – Hvít jól. Passlega sætar smákökur og sítrónusmjörið gerði frískandi bragð. Toppurinn var svo hvíta súkkulaðið og gullsnjórinn þar ofan á. Carola er vel að fyrsta sætinu komin

Hvít jól 

1 ¾ bolli KORNAX hveiti
½ tsk lyftiduft
¼ tsk salt
115 gr smjör (mjúkt)
½ bolli púðursykur
½ bolli sykur
1 egg
1 tsk vanilludropar
Rifið hýði af einni sítrónu
2 msk sítrónusafi
1 ½ bolli rifinn kókos, mjúkur úr pokum (sjá mynd fyrir neðan)
100 gr hvítir súkkulaðidropar frá NÓA SIRÍUS

Fylling:

2 dl lemon curd
3 dl kókosflögur (muldar gróft)

Súkkulaðihjúpur:

200 gr hvítir súkkulaðidropar frá Nóa Siríus

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C, setjið kókosflögur á bökunarpappír í ofnskúffu og ristið í ofni í um.þ.b.. 5 mín. (Passið að brenna ekki, á að vera gullið á lit).
Hrærið mjúku smjöri og sykri saman, bætið við eggi, vanilludropum, rifnum sítrónuberki og sítrónusafa við deigið, hrærið þar til það hefur blandast vel saman. Þá er hveiti, lyftidufti og salti bætt við. Blandið að lokum kókosflögum og hvítu súkkulaði saman við.
Setjið inn í ísskáp í um.þ.b. 30 mín, búið til kúlur og setjið á bökunarpappír.
Þrýstið þumli í miðja kökuna til að búa til góða holu.
Hrærið saman lemon curd og kókosflögum í skál. Setjið þá góða teskeið af fyllingu í hverja köku og bakið í um.þ.b. 12 mín við 180°C. Kælið kökurnar.
Bræðið 200 gr af hvítum súkkulaðidropum yfir vatnsbaði og setjið yfir hverja köku með teskeið. Skreytið að vild.

2. sæti – Appelsínueftirlæti. Í öðru sæti voru einstaklega jólalegar smákökur sem Ásdís Hjálmtýsdóttir sendi inn. Súkkulaðið, möndluflögurnar og appelsínubörkurinn minnti dómnefndina á að það styttist til jóla og góður kaffisopi passar afar vel með þessum góðu smákökum

Appelsínueftirlæti 

250 gr smjör við stofuhita
250 gr sykur
350 gr KORNAX hveiti
1 egg
Rifinn appelsínubörkur af tveimur appelsínum
Safi úr einni appelsínu

Ofan á kökurnar:

150 gr Konsum Orange frá Nóa Síríus.
Rifinn appelsínubörkur af þremur appelsínum og möndluflögur.

Aðferð:

Hrærið smjör og sykur vel saman og bætið appelsínusafanum við, hveiti er þá bætt út í í smá skömmtum ásamt rifna berkinum.
Hnoðið vel saman. Rúllið í lengjur og kælið í um.þ.b. 2 klst.
Skerið í 1 cm þykkar sneiðar, bakið við 190°C í ca. 15 mínútur.
Kælið kökurnar.

Ofan á kökur:

Bræðið súkkulaði í örbylgjuofni í um.þ.b. eina mínútu.
Hitið ½ dl af vatni og 4 msk af sykri þar til það fer að þykkna.
Bætið þá rifna appelsínuberkinum saman við sykurblönduna og látið bíða um stund.

Samsetning: Súkkulaði er sett á kökuna með teskeið, möndluflögum stráð yfir og örlítið af berkinum. Kælið og njótið.

3. sæti – Stúfur bakari. Í þriðja sæti urðu smákökur sem Elenóra Rós sendi inn. Stökkar kökur og ofan á þeim mjúkt súkkulaðikrem með appelsínukeim.

Stúfur bakari 3. sæti

300 gr KORNAX hveiti
150 gr smjör
100 gr flórsykur
1 egg

Súkkulaði yfir köku:

100 gr Pralin frá Nóa Síríus

Aðferð:
Setjið öll hráefnin saman í hrærivélaskál og hrærið þar til að deigið er næstum alveg hrært saman.
Hellið því á borðið og klárið að hnoða það saman með höndum.
Kælið í 30 mín.
Takið það úr kæli og fletjið út og skerið eins og þið vilji hafa það.
Setjið kökurnar á pappírsklædda ofnskúffu og bakið við 200°C í 6-8 mínútur.

Krem uppskrift:

250 gr flórsykur
250 gr smjör
100 gr Konsum Orange frá Nóa Siríus
Safi úr einni appelsínu

Aðferð: Þeytið smjör þar til létt og ljóst.
Bætið flórsykri við og þeytið aðeins lengur.
Á meðan smjörkremið þeytist þá er gott að bræða súkkulaðið.
Þegar kremið og súkkulaðið er tilbúið kælið þá hvort tveggja í um.þ.b. 15 mínútur.
Hellið þá kældu súkkulaði út í kremið og hrærið, bætið þá safanum út í og hrærið örlítið lengur.
Sprautið kreminu á smákökuna og setjið inn í ísskáp.

Súkkulaði yfir köku:

Bræðið Pralin súkkulaði yfir vatnsbaði og setjið yfir kökurnar.

4.sæti – Heims um ból. Andrea Jónsdóttir sendi inn kökur sem hún kallar Heims um ból. kryddaðar smákökur með engifer, múskat og kanil á milli var vel af smjörkremi.

Heims um ból

1 bolli mjúkt smjör
1 bolli púðursykur
¾ bolli sykur
2 stór egg
1 ½ tsk vanilludropar
½ tsk romm dropar
3 bollar Kornax hveiti
½ bolli haframjöl
1 ½ tsk kanill
¾ tsk salt
¾ tsk lyftiduft
½ tsk múskat
½ tsk engifer
1pk hvítir súkkulaðidropar (150g)
1 bolli saxaðar valhnetur, ristaðar
1 bolli raspaðar gulrætur
¾ bolli rúsínur

Fylling:
230 gr rjómaostur
½ bolli mjúkt smjör
1 ¼ bolli flórsykur
1 tsk vanilludropar
½ bolli ristaðar valhnetur
2 matsk maukaður ananas úr dós

Aðferð:
Hrærið saman sykur og smjör þar til ljóst og létt, bætið eggjum og dropum saman við. Blandið saman hveiti, höfrum, kanil, salti, lyftidufti, engifer, múskat og hvítum súkkulaðidropum. Bætið því svo rólega í skömmtum saman við smjörblönduna. Að seinustu fara valhnetur, gulrætur og rúsinur út í deigið.

Hitið ofninn í 170 gráður. Setjið degið með tsk á bökunarplötu (bökunarpappír) þjappið aðeins með glasi, bakið í ca 8-9 mín eða þar til kökurnar eru aðeins farnar að brúnast. Kælið alveg.

Fylling: setjið rjómaost, smjör, flórsykur og vanilludropa í skál og hrærið saman þar til létt, bætið þá ananaskurli og valhnetum saman við. Smyrjið helminginn af kökunum (botninn) og leggið saman með hinum helmingnum (búið til samlokur) skreytið með flórsykri, sett í fínt sigti og látið snjóa yfir.
Geymið í lokuðu íláti í ísskáp.

Dómnefndin: Sylvía, Ásta Björk, Auðjón og Albert
Dómnefndin: Sylvía, Ásta Björk, Auðjón og Albert

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.