Food & Fun á Essensia. Nú er Food and Fun að hefjast með látum. Á Essensia á Hverfisgötu er mættur til leiks þessi líka bráðmyndarlegi kokkur, Nicola Fanetti, þrítugur Ítali, en hann á veitingastaðinn Brace í Kaupmannahöfn.
Við fórum með Eddu Björgvins og Völu Matt og vissulega barst drengurinn fagri í tal. Hann er auðvitað svo ungur, að Edda sagðist fá á tilfinninguna að hana langaði að skella honum upp á öxlina og láta hann ropa. Þarna var búið að örva hláturtaugarnar, svo að ekki varð aftur snúið, frekar en venjulega í félagsskap þessara glæsikvenna.
Nicola hefur gaman af að tengjast því umhverfi sem hann er staddur á, bláber og hvönn fá til dæmis að dansa með á matseðlinum, en á Brace sameinar hann einmitt ítalska og norræna matreiðslu.
Hinn ítalski Nicola Fanetti skenkir grænu sósuna á forréttinn
Á undan fengum við svokallaða „Brace Carbonara“, tartalettu með ostakremi undir, eggjakremi ofan á og heimagerðri pancettu. Þetta æsti heldur betur upp í okkur lystina með laufléttri og blíðri áferð.
Brauðið með olíunni var að sjálfsögðu bakað á staðnum og með ítölskum kryddum.
Forrétturinn var bleikju-carpaccio með pistasíukremi, skessujurt, hvannarfræjum og vatnakarsa. Með þessu fengum við Frank Millet Sancerre hvítvín. Þarna var kveikt á öllum bragðlaukum. Kremið var gert úr ab mjólk og pistasíum og grænu kryddunum, hreint út sagt guðdómleg.
Eins og Edda sagði, var þetta „out of this world“, bæði jól og páskar í einu!
Þá fengum við saltfisks-ravioli með pecorino ostakremi, ítölskum vetrar-jarðsveppum („trufflum“) og þurrkuðu söldufti yfir. Þetta var bráðskemmtileg samsetning, eins og við hefðum brugðið okkur í ferð til Ítalíu og Spánar í einu og kom reglulega á óvart.Rauðvínið með ravioli-inu var Armeli Chianti, með San Giovese þrúgu, afskaplega ljúft og gott vín.
Í aðalrétt var lambahryggur með grilluðum blaðlauk, lyngkryddi, þurrkuðum bláberjum og sveppasósu. Með þessu var Sela kryddað berjavín, Bodegas Roda Selá MAGNUM.
Þetta bráðnaði auðvitað uppi í okkur, þrátt fyrir að grænu baunirnar og rauðkálið væru víðs fjarri (sem betur fer segir Vala). Vala sósukona var líka í skýjunum með sósuna og laumaðist til að sleikja sósuna með puttanum af diskinum í lokin
Í eftirrétt var timian ís með sultuðum blóðappelsínum, heslihnetu „crumble“ og szechuan pipar karamellu. Með þessu fengum við franskt sætvín, Jaboulet Muscat de Beaumes de Venise! Edda sagðist myndu fara yfir Holtavörðuheiði til að fá sér svona ís, hann er mjög ferskur og léttur, en Vala var sérlega hrifin af blóðappelsínunum. Báðar voru sammála um að piparkaramellan væri „to die for“.
Limoncello á eftir var heimagert úr lífrænum sikileyskum sítrónum með spíra sem gerður var úr mysu. Mun betra en það sem hægt er að kaupa. Því miður gleymdist að myndar herlegheitin