Árið 1920 kom út bókin Mannasiðir eftir Jón Jacobson landsbókavörð. Eins og gerist með slíkar bækur þá eldist sumt í þeim misvel.
— BORÐSIÐIR/KURTEISI — ÍSLENSKT — GÖMUL RÁÐ OG HÁTTVÍSI —
.
Ropar eru viðbjóðslegir, og engin vörn í máli, að ekki sé hægt að gera við þeim. Það er ógeðslegur ávani, sem hægt er að venja sig af, og aldrei þarf að verða nokkrum tamur.
Vel tenntur fríður munnur eykur mjög á fegurð andlitsins. Og þótt menn séu ekki munnfríðir, bæta fagrar tennur mjög mikið. Hirðing tanna er hreinlætisatriði og það mjög merkilegt, því að undir henni er ekki einungis fegurð tannanna, heldur heilsa þeirra komin. Og hvern langar til að kyssa ungan og æskufríðan munninn, þar sem skín í gular og óhreinar tennurnar fyrir innan, ef hlegið er, eða mælt orð frá vörum. Andremi og óhreinn munnur hefur meyjar mörgum biðlum svift.
Leggið ekki handleggina upp á borðin. Nuddið ekki höndum um hné. Róið ekki í sessi. Varist skellihlátur; kastið yður ekki aftur á bak með galopinn hlæjandi munninn og sláið ekki á lærin eða hnén. Forðist að hnerra hátt ef unnt er því að þá afskræmist andlitið, hafið munninn lokaðan þegar þér eruð ekki að nota hann. Notið vasaklútinn gætilega og snýtið yður ekki svo hrottalega að við kveði Þórdunur. Sleikið ekki af matforki né hníf að loknum málsverði.
Hrókaræður í veizlum eða viðtali um búnað eða vísindi, listir, skáldskap eða stjórnmál geta verið góðar, þarflegar og skemtilegar, þegar menn eru í sínum hóp, en afar svæfandi og hjáleitar innan um fólk, þar sem hver er af sínu sauðahúsi. Það hlýtur t.d. að hafa verið dauf skemtun fyrir vesalings vinnufólkið á prestsetrinu hér um árið, þegar blessaður sveitapresturinn var að þylja upp fyrir því latnesku málfræðina hans Madvigs – því til skemtunar á vökunni!
Að lita hár sitt er blátt áfram viðbjóðslegt. Grá hár sóma sér jafnvel sem hver annar litur og silfurhærur meira að segja oft afbragðsfagrar á að líta.
Hræðilegt er að sjá menn fara að stanga úr tönnum sér eftir máltíð.
Ógeðslegri sjón getur ekki, en að sjá tvífættar mannskepnurnar skríðandi á fjórum fótum fyrir yfirboðurum sínum eða öðrum, sem standa þeim ofar í metorða stiga og valda, en getandi í hvoruga löppina stigið fyrir ofmetnaði og reigingi gegn undirmönnum sínum og öðrum, sem lægra eru settir í lífinu.
— BORÐSIÐIR/KURTEISI — ÍSLENSKT — GÖMUL RÁÐ OG HÁTTVÍSI —
.