Í kaffiveislu hjá Guðrúnu á Mýri
Í vetur hittum við kvenfélagskonur úr Bárðardal sem brugðu sér í menningar- og skemmtiferð til Reykjavíkur. Guðrún Sveinbjörnsdóttir á Mýri tók af okkur loforð að koma við í Bárðardal næst þegar við færum um landið. Þegar okkur bar að garði á föstudaginn var hún búin að bjóða nokkrum kvenfélagskonum að drekka með okkur kaffið. Það voru verulega undrandi ferðalangar sem hittu þessar glaðlegu konur aftur og óvænt – sannkallaðir fagnaðarfundir. Guðrún bakaði og útbjó heil ósköp af góðgæti sem hún lagði listafallega á borðið.
#sumarferðalag12/15 — ÍSLENSKT — KVENFÉLÖG — KAFFIBOÐ —
.
Dagrúnarkaka var þeirra útgáfa af snúðakökunni góðu sem smakkaðist afar vel eins og allt hitt. Þykkt heimasteikt flatbrauð með heimareyktu hangikjöti, reyktur silungur með nýbökuðum gerbollum, frómas með muldum marengs út í og ég veit bara ekki hvað og hvað. Líflegar umræður gerði kaffiboð enn betra. Fyrst var skálað í hollum grasadrykk sem byggður er á uppskrift Þórunnar grasakonu og í lokin var dreypt á túnfíflavíni. Svei mér þá ef þetta ástarsamband okkar við bárðdælsku kvenfélagskonurnar endar ekki með því að við förum á þorrablótið í dalnum….
.
#sumarferðalag12/15 — ÍSLENSKT — KVENFÉLÖG — KAFFIBOÐ —
— Í KAFFIVEISLU HJÁ GUÐRÚNU Á MÝRI —
.