
Góða apríkósutertan hennar Jórunnar – Kaffihús og Hælið
Á Kristnesi í Eyjafirði er sýning um berklaárin á Íslandi. María Pálsdóttir eldmóðskona og stofnandi tók á móti okkur, sýndi og sagði frá. Það er áhrifaríkt að ganga þar um og fræðast um þennan skelfilega sjúkdóm sem felldi nokkur þúsund manns á Íslandi. Þó efniviðurinn sé ógnvekjandi þá er þetta samt heillandi og gert af þeirri virðingu sem hæfir og vel má mæla með heimsókn á Hælið. Samhliða safninu rekur María kaffihús og þar fengum við afar góða apríkósutertu.
#sumarferðalag13/15 — AKUREYRI — TERTUUPPSKRIFTIR —
.

Góða apríkósutertan hennar Jórunnar
2 egg, stór
150 g sykur
175 g hveiti, sigtað
1 tsk lyftiduft
Egg og sykur þeytt saman. Hinu bætt út í og hrært saman við. Sett í form og bakað í 20 mínútur 180 gráður í blástursofni.
Á meðan er kókoshjúpurinn búinn til.
50 g smjör eða smjörlíki brætt
90 g sykur
125 g kókosmjöl
1 stórt egg
Hrært saman þar til það er orðið samfellt. Passa að hafa ekki of heitt svo eggi hlaupi ekki. Ef þetta er sundurlaust má bæta við smá smjöri
Apríkósusulta, 1/2 krukka eða meira. Coop sulta er góð beint úr krukkunni en sumar gerðir eru sætar og harðar og þá þarf að velgja þær og bæta sítrónusafa út í svo hægt sé að smyrja þeim.
Kakan tekin út úr ofninum og hálfri krukku af apríkósusultu smurt yfir og kókosblandan sett þar ofan á.
Kakan sett aftur í ofninn og bökuð í 10 mínútur í viðbót.


.
#sumarferðalag13/15 — AKUREYRI — TERTUUPPSKRIFTIR —
.