Nielsen restaurant á Egilsstöðum
Kári Þorsteinsson var yfirkokkur á Dill, þeim fína Michelin stjörnu stað, en flutti til Egilsstaða í vor ásamt konu sinni, Sólveigu Bjarnadóttur, sem er ættuð þaðan. Má segja að nú sé kominn ferskur heimsborgarablær í matargerð á Austurlandi með opnun Nielsen restaurant á Egilsstöðum. Hér er allt í fínlegu jafnvægi og gælt við bragðlaukana með fersku árstíðabundu hráefni.
.
— NIELSEN — EGILSSTAÐIR — KÁRI ÞORSTEINSSON — ÍSLAND — ÍSLENSKT — MICHELIN — BORGARFJÖRÐUR EYSTRI — VALLANES —
.
Nánast allt hráefni sem notað er á Nielsen er af svæðinu, t.d. hefur verið á boðstólum hreindýra-tartar (veitt af kokkinum sjálfum), bygg, kryddjurtir og grænmeti frá Vallanesi, ferskostur og skyr frá Fjóshorninu við Egilsstaðabýlið, fiskur frá Borgarfirði eystra og villibráð af Austurlandi,. Strákarnir í eldhúsinu fara svo og sækja ýmsar jurtir út í náttúrunni svo sem hvönn, lerki, rabarbara o.m.fl.
Húsnæðið er sérlega fallegt og þar er yndislegur pallur sem dásamlegt er að sitja á í góðu veðri.
Fyrst fengum við nauta-carpaccio frá Breiðavaði úr fillet, með fáfnisgrasmajonesi, sýrðum rauðrófum, klettasalati sem hafði verið tekið upp 45 mínútum áður frá Eymundi í Vallanesi og Gelli, sem er ferskostur frá Egilsstaðabúinu.
Brakandi ferskur villtur lax frá Kirkjubæ rétt ofan við Lagarfossvirkjun, með jógúrt frá Fjóshorninu og dill brauðraspur með súrsætri dillolíu.
Bygg-risotto þar sem byggið er maltað (súrsað í mysu og brúnað í ofni við vægan hita), sem gerir það ennþá bragðmeira, Gelli og skyri.
Kjúklingur á kremuðu byggi og bakaður hvítlaukur (eldaður yfir nótt á lágum hita) með fáfnisgrasolíu og grænkáli frá Vallanesi. Sósan var úr mysu og kjúklingasoði. Þetta bragðaðist einkar vel, kjúklingurinn stökkur að utan og sósan lystileg.
Lamba-prime, blómkálsmauk og brúnað hnúðkálsmauk, gerjað hnúðkál í sneiðum, kartöflur frá Skógargerði og grænkál. Dúnmjúkt lambið var sælgæti og jafnvægi gott.
Ný ýsa frá Borgarfirði eystra með súrsaðri hvönn, byggi frá Vallanesi og rabarbaramauki sem var blandað í repjuolíu, sósan er mysu-basil dressing. Einstaklega vel eldað og ljúffengt.
Frískandi kerfils-sorbet sem gefur lakkrísbragð, á bökuðu hvítu súkkulaði, þurrkuð jarðarber og basilolía ofan á.
Súkkulaði saltkaramella, mjólkurís frá Skúbb og lerkiolía ofan á.
.
— NIELSEN — EGILSSTAÐIR — KÁRI ÞORSTEINSSON — ÍSLAND — ÍSLENSKT — MICHELIN — BORGARFJÖRÐUR EYSTRI — VALLANES —