INGIRÍÐARTERTAN
Síðustu tvo áratugi hef ég reglulega heyrt af undurgóðri Ingiríðartertu sem Inga Björk Sveinsdóttir bakar og er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldu hennar. Uppskriftina fékk hún í dönsku blaði fyrir mörgum árum. Eftir að hafa drukkið tertukaffi með Ingu skil ég vel hvers vegna tertan er í svona miklu uppáhaldi.
Inga Björk er með galdraduft í sprota sínum, sem hún stráir yfir umhverfið með listfengi sínu. Handverk hennar er löngu þekkt meðal þeirra sem þekkja til, hvort sem um er að ræða sauma- eða prjónaskap. Í höndum hennar verða ekki bara til flíkur, heldur hrein listaverk. Inga Björk er nefnilega fyrst og fremst listakona, að því er virðist án þess að vita af því sjálf, og um það vitna m.a. veflistaverk hennar á veggjum heimilisins. Þessi verk myndu sóma sér vel í listasöfnum þjóðarinnar. En sumir eru bara ekki fyrir að trana sér fram.
Ég þurfti því að beita öllum mínum sannfæringarkrafti til að fá að mynda eitt af djásnunum hennar úr uppskriftakistunni, hina konunglegu Ingiríðartertu. En það tókst, til allrar hamingju fyrir lesendur síðunnar!
🇩🇰
— DANMÖRK — TERTUR — DROTTNINGAR — ROYAL — MARGRÉT DANADROTTNING —
🇩🇰
Ingiríðarterta (drottningaterta)
Möndlubotn
3 egg
3 dl sykur
150 g smjör, brætt
1 1/2 dl mjólk eða rjómi
150 g gróft malaðar heslihnetur
3 dl hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
Þeytið egg og sykur vel. Blandið þurrefnunum saman. Blandið saman bræddu smjöri og mjólk/rjóma og setjið í eggjahræruna og síðast þurrefnin.
Bakið í tveimur vel smurðum formum í ca 1 klst við 150°C
Marengsbotn
3 eggjahvítur
125 g flórsykur
Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum gætilega í.
Bakið við 150°C í um klst.
Rjómakrem
6 dl rjómi
3 tsk Nescafé
6 tsk flórsykur
Þeytið rjómann, malið kaffið smátt í morteli og blandið saman vð ásamt flórsykri.
Súkkulaðihjúpur
rifinn börkur af hálfri appelsínu
safi úr hálfri appelsínu
1 tsk sykur
2 msk koníak eða Grand Marnier
100 g dökkt súkkulaði
2 tsk kókosolía
Sjóðið hýðið í safanum, sykri og koníaki uns hýðið er orðið mjúkt.
Bræðið súkkulaðið og olíuna í vatnsbaði og hellið appelsínuleginum saman við.
Tertan sett saman:
Möndlubotn,
helmingur af rjómanum,
marengsbotn,
helmingur af rjómanum
möndlubotn og
súkkulaðihjúpur efst.
👑
Ingiríður er sænsk prinsessa, dóttir Gústafs Adolfs VI og breskrar konu hans, Margaretu af Connaught. Hún var eina stúlkan í hópi fjögurra bræðra. Ingiríður lést árið 2000.
🇩🇰
— DANMÖRK — TERTUR — DROTTNINGAR — ROYAL — MARGRÉT DANADROTTNING —