Heimsreisumatarferð í eldhúsinu
„Ég hef gaman af því að elda mat frá ólíkum löndum og þegar slagorðið „ferðumst innanhúss“ fór í loftið fyrir páska kviknaði sú hugmynd að ferðast í gegnum eldhúsið mitt til ólíkra heimshluta” segir Kristjana Jóhannsdóttir sem fékk krakkana sína með sér í lið og þau settust niður með á annan tug matreiðslubóka og fundu uppskriftir fyrir alla kvöldverði í páskafríinu. Eina reglan var að fara vítt og breitt um heiminn og huga að fjölbreytni í matreiðslunni. „Við skiptumst á að hafa kjöt, fisk, kjúkling og grænmetisrétti og aðeins tvo af þessum réttum höfðum við eldað áður. Allir hinir réttirnir réðust af því hvaða bækur eru til á heimilinu fyrir utan einn sem við fundum á netinu. Krakkarnir mínir eru að læra tungumál og tveir af þessum réttum voru á frummálinu, þ.e. spænsku og frönsku. Indland og Kína voru valin af því þangað höfum við öll komið og ég á barn frá báðum löndum. Einn réttur er úr bók sem ég keypti í Hong Kong er er eftir þarlendan höfund. Ég er ástríðufullur matreiðslubókasafnari og fékk palestínska matreiðslubók í pósti vikuna fyrir páska. Það var því tilvalið að halda þangað eitt kvöldið auk þess sem nýleg sýrlensk bók hafði ekki verið notuð fyrr. Sömu sögu er reyndar að segja af bók frá Suður-Afríku og bókinni „Cooking with my Indian mother-in-law“ sem höfðu legið of lengi óhreyfðar í hillunni. Ég hafði yfirumsjón með eldamennskunni, en fékk stundum hjálp frá krökkunum mínum. Ég fékk algjört frí á páskadag þar sem uppskriftin að páskadagsmáltíðinni var á frönsku sem dóttir mín skilur en ekki ég!” ☺
STÖÐVARFJÖRÐUR (Kristjana er Stöðfirðingur) — REYÐARFJÖRÐUR (Páll er Reyðfirðingur) — FRAKKLAND — SPÁNN — INDLAND — ÍTALÍA —
.
Fyrsti áfangastaður okkar í ferðinni var Baskaland. Ástæðan fyrir valinu er sú að við höfum komið þangað auk þess sem „Bacalao salsa verte“ er uppáhalds saltfiskrétturinn okkar og einn af fáum réttum sem eru eldaðir aftur og aftur í þessu nýjungagjarna tilraunaeldhúsi.
Bacalao salsa verte frá Baskalandi – uppskrift handa fjórum
800 g saltfiskur með roði í fjórum bitum
10 hvítlauksrif
Græn og fín jómfrúar-ólífuolía
Olían er sett í í djúpa pönnu, um hálfs sentimetra lag. Hvítlaukurinn er látinn malla í olíunni við vægan hita í um 20 mínútur. Hann á að verða gulur en má alls ekki dökkna. Hvítlaukurinn er svo veiddur uppúr olíunni og hún er kæld.
Saltfiskurinn er síðan soðinn á pönnunni með olíunni og roðið látið snúa niður. Allan tímann, þar til fiskurinn er fullsoðinn, er pannan skekin til með jafnri hreyfingu, svo að úr olíunni og eggjahvítunni úr fiskinum myndist létt grænleit sósa.
Með saltfiskinum er gott að bera fram klettasalat, langbrauð og smjör. Rioja rauðvín hæfir réttinum sérlega vel.
Annað kvöldið fórum við til Palestínu í fyrsta sinn. Þar sem ég átti lambabóg í kistunni varð hægeldaður Shawarma lambabógur fyrir valinu. Þessi réttur er einn af okkar uppáhalds úr ferðalaginu.
„Pulled“ lamba Shawarma samloka – fyrir 8 manns
3 laukar, 1 þeirra er grófsaxaður og 2 skornir í 4 báta
2 heilir hvítlaukar, 1 þeirra er skorinn í tvennt og 8 lauf af hinum eru skorin gróft
2 ½ cm (25 g) engifer, flisjaður og gróflega saxaður
20 g steinselja, gróft söxuð
1 ½ msk cumin duft
1 ½ msk kóriander duft
2 tsk reykt paprika
2 tsk turmerik
2 tsk kanill
¼ tsk negull
3 msk eplaedik
60 ml ólífuolía
2- 2 ½ kg lambabógur með beini (okkar var rúm 1,6 kg)
700 ml kjúklingasoð
½ sítróna
Salt og svartur pipar
Fyrst er kryddmauk fyrir lambið búið til. Saxaði laukurinn, hvítlaukurinn og engiferið sett í matvinssluvél og maukað fínt. Síðan fer steinselja og krydd saman við og látið blandast vel saman. Síðan fer edik, olía og 2 ¼ tsk af salti og vel af muldum svörtum pipar. Allt er maukað þar til kryddblandan verður gróf. Þetta er sett í gler- eða leirfat. Lambið er þerrað og stungið með hnífsoddi vítt og dreift. Því næst fer lambið ofan í fatið og kryddblöndunni er makað yfir allt kjötið. Álpappír er látinn yfir og kjötið marinerast yfir nótt.
Kjötið er tekið úr ísskápnum klukkutíma áður en það fer í ofninn. Ofninn er hitaður í 140°C blástur. Það sem eftir er af lauknum og hvítlauknum er látið í eldfast mót og kjúklingasoðinu hellt yfir. Kjötið er látið ofaná laukana. Setjið álpappír yfir og bakið í 4 tíma.
Álpappírinn er tekinn af og kjötið er bakað í 90 mín í viðbót og hitinn hækkar í 160°C blástur seinasta hálftímann. Lambið er látið kólna í 15 mín og því næst er kjötið rifið með 2 göfflum og sítrónan er kreist yfir.
Á meðan lambið er í ofninum er sumac-jógúrt búið til:
200 g Grísk jógúrt
600 g tahini
1 ½ msk sítrónusafi
2 tsk sumac
2 msk vatn
¼ tsk salt
Aðferð: Þessu er öllu hrært saman.
Lambið er borið fram með eftirfarandi eða því sem fólk velur:
2 tómatar, þunnt skornir
1 rauðlaukur, þunnt skorinn
Steinselja, söxuð
Myntulauf
Harissa sósu- blandaðri með ólífuolíu og ediki
Pítubrauð
Næsti viðkomustaður í heimsreisunni okkar var Sýrland. Við völdum kjúklingarétt þaðan, þ.e. kjúklinga- og möndlubollur sem voru sérlega góðar.
Bakaðar kjúklinga- og möndlubollur – fyrir 4
Fyrir möndlusósuna:
150 ml kjúklingasoð
Rifinn börkur af einni sítrónu
100 g möndlusmjör
Salt eftir smekk
Fyrir kjötbollurnar:
500 g úrbeinuð kjúklingalæri, lærin eru söxuð gróflega og svo eru þau hökkuð í matvinnsluvél
1 egg
4 vorlaukar
6 msk möndlumjöl
2 msk ferkst kóriander
1 ½ tsk cumin
1 tsk kóriander duft
Nýmulinn svartur pipar og salt
Ólífuolía til að pensla
Sósan:
Náið suðu í kjúklingasoðinu og fjarlægið þá af hitanum. Pískið soðinu smátt saman við möndlusmjörið svo það blandist vel saman. Þegar öllu soðinu hefur verið bætt saman við er sítrónuberki og salti bætt við.
Kjúklingabollurnar:
Hitið ofninn í 200°. Blandið saman öllum hráefnum fyrir bollurnar í stóra skál og kryddið vel með salti og pipar. Verið með rakar hendur þegar þið mótið bollurnar í stærð á við matskeið. Látið á bökunarplötu og penslið bollurnar með ólífuolíu og bakið í 17-29 mín.
Þegar lítið er eftir af bollunum er sósan hituð aftur og henni er hellt yfir bollurnar þegar þær hafa verið settar á fat.
Besta rísottó í heimi!
Eldri heimasætan á bænum átti afmæli næsta dag og fékk að velja sér í kvöldmatinn af því tilefni. Hún valdi annan uppáhaldsrétt fjölskyldunnar sem hefur verið hér á borðum nokkrum sinnum áður og var lengi vel kallaður „ítalskur grjónagrautur“ þegar krakkarnir voru litlir. Þetta er „Risotto Con Porcini“ að hætti Antonio Carluccio. Besta rísottó í heimi!
Risotto Con Porcini
Uppskrift fyrir 4 (við tvöfölduðum vegna þess að við borðuðum réttinn sem aðalrétt)
Innihald:
300-350 g ferskir sveppir
25 g þurrkaðir sveppir
1 lítill laukur, fínsaxaður
2 msk ólífuolía
30 g smjör
350 g Arborio hrísgrjón
1,5 l kjúklingasoð
Salt og nýmalaður svartur pipar
Aðeins meira smjör
60 g ferskur rifinn parmessan ostur
Þurrkuðu sveppirnir eru lagðir í bleyti uppúr sjóðandi heitu vatni í 15 mínútur. Fersku sveppirnir eru hreinsaðir og skornir í fínar sneiðar. Laukurinn er steiktur uppúr olíu og smjöri. Fersku sveppirnir fara útí þegar laukurinn hefur mýkst og allt er steikt saman í nokkrar mínútur. Þurrkuðu sveppirnir eru saxaðir fínt og þeim er bætt saman við hina sveppina. Soðinu af svepponum er bætt við kjúklingasoðið. Hrisgrjónin fara saman við sveppina og soðinu er bætt smátt og smátt við þangað til grjónin eru soðin. Þá er potturinn tekinn af hitanum og smjöri og parmessan osti hrært samanvið.
Indverskur matur er í miklu uppáhaldi og að þessu sinni ákvað ég að vera með venjulegan indverskan heimilismat. Þetta er mjög gott fiskikarrý, „Machi nu saak“ og er sósan algjört lostæti fyrir nú utan það hvað hún var falleg á litinn! Uppskriftin af henni er mjög stór eða lítið af fiski miðað við magn sósunnar, enda nota Indverjar karrýsósurnar sínar óspart yfir hrísgrjónin sem eru ómissandi meðlæti þar í landi. Mjög góður réttur.
Indverskt fiski karrý – uppskrift fyrir tvo svanga
200 g hvítur fiskur, við notuðum þorsk
3 hvítlauksgeirar
1 cm engifer
½ tsk salt
1 ½ msk olía
¾ tsk madras karrý
¼ tsk mulin kóriander- og aðeins minna af cumin fræum sem hafa verið ristuð saman og mulin í morteli
½ tsk chilli duft
¼ tsk turmerik
1-2 grænir chilli, skornir langsum í 4 parta
1 msk saxað kóriander
3 msk laukur sem hefur verið steiktur þar til hann varð stökkur
400 g niðursoðnir tómatar
1 msk tómatpúrra
salt
Hvítlaukur, engifer og salt er maukað saman og steikt í 1 mín. Karrý, kóriander og cumin mulningurinn, chilliduft, turmerik, græni chilliinn og helmingurinn af kórianderinu er hrært saman í 30 sek. Þá eru tómatar og laukur bættur samanvið og sósan er soðin þar til laukurinn fer að mýkna og olían fer að fljóta á yfirborðinu. 425 ml af vatni er bætt samanvið og hitað að suðu. Sósan er smökkuð til með salti. Fisk er bætt út í sósuna í litlum bitum og soðinn í 5 mín. Kóriander er stráð yfir í lokinn.
Okkur fannst kominn tími til að heimsækja Suður-Ameríku og völdum land sem við vissum lítið um og alls ekkert um matrmenninguna. Uruguay varð fyrir valinu og réttinn fundum við á netinu. Þetta er einn uppáhalds rétturinn okkar eftir þetta matar-ferðalag og ekki síst hvað hann er einfaldur í matreiðslu. „Pamplonas de Pollo“ eru fylltar kjúklingabringur vafðar með beikoni, bakaðar í álpappír í ofni og síðan steiktar á pönnu í lokin. Við hefðum eins getað grillað þær á útigrilli en veðrið bauð ekki alveg upp á slíkt.
Pamplonas de pollo – fyrir 5
5 kjúklingabringur
1 pakki beikon
300 g manchego ostur
1 krukka sólþurrkaðir tómatar
Vorlaukur
Ólífur
Paprikukrydd
Salt
Pipar
1 sítróna
Aðferð:
Kjúklingabringur eru skornar langsum til helminga en ekki alveg í sundur og lagðar ofan á álpappír. Plastfilma er lögð ofaná bringurnar og þær eru barðar með hamri. Plastfilman er tekin af og kjúklingabringan er krydduð. Ofan á kjúklingabringuna er manchego ostur, vorlaukur, ólífur og sólþurrkaðir tómatar raðaðir langsum. Beikoni er raðað á langa endann fjær.
Því næst er kjúklingabringan rúlluð þannig að beikonið vefjist utanum bringuna. Álpappírinn er svo vafinn um kjúklingabringuna og hún er bökuð í 180°C heitum ofni í 30 mín. Að lokum eru bringurnar smjörsteiktar til þess að brúna beikonið.
Borið fram með guacamole og Pepre salsa.
Pepre salsa frá Chile
3 saxaðir tómatar
¾ bolli saxaður vorlaukur
1 saxaður grænn chilli
1 maukaður hvítlauksgeiri
½ búnt af kóriander
1 ½ msk ólífuolía
safi úr ½ sítrónu
salt
Söxuð steinselja eftir smekk
Aðferð: Öllu er blandað saman
Á föstudaginn langa fannst okkur við hæfi að hafa grænmetisrétt. Hann var frá Sri Lanka, einfaldur, fljótlegur og sérlega bragðgóður.
Grænmetiskarrý frá Sri Lanka – fyrir 4
1 stór sæt kartafla, skrölluð og skorin í munnbita
½ butternutt grasker, skrallað og skorið í munnbita
3 msk kókosolía
½ tsk turmerik
½ kanill
½ tsk chilli duft
1 tsk karrý
2 rauðar paprikur, skornar í sneiðar
1 tsk cumin fræ
1 tsk svört sinnepsfræ
1 stór rauðlaukur, sneiddur fínt
3 hvítlauksgeirar, sneiddir fínt
2 grænir chilli, fræhreinsaðir og skornir í litla bita
400 g kókosmjólk í dós
1 msk kókossykur eða hlynssýróp
safi af ½ lime
100 g spínat
salt
Ofninn er stiltur á 220°C blástur. Sæta kartaflan og graskerið sett á ofnplötu með smá salti, 2 msk af kókosolíunni, turmerik, kanil, chilli dufti og karrýi. Bakað í ofni í 30-35 mínútur. Paprikunni er bætt við síðustu 10 mínúturnar. Á meðan kartöflurnar bakast er panna hituð á meðalhita ásamt restinni af kókosolíunni og fræin eru hituð í 30 sek þar til þau byrja að smella. Þá fer rauðlaukurinn, hvítlaukurinn og chilliinn samanvið og það er látið malla í 5 mínútur. Þá er kókosmjólkinni og kókossykrinum bætt saman við og það látið malla í 15 mínútur og lime safinn fer útí seinustu 5 mínúturnar. Eftir að 15 mínúturnar hafa liðið er ofnbakaða grænmetinu bætt útí pottinn og hitað saman í 5 mínútur. Að lokum er spínatinu bætt saman við rétt áður en rétturinn er borinn fram.
Borið fram með hýðishrísgrjónum eða quinoa.
Kínverska kvöldið okkar var hefðbundið kínverskt að því leyti að þar voru nokkrir ólíkir réttir eins og vaninn er þar. Við vorum með núðlurétt sem átti að vera með eggjanúðlum en við notuðum hrísgrjónanúðlur í staðinn. Síðan var nautakjöt, grænmeti og kjúklingaréttur sem okkur þótti bestur.
Kínaveisla
Sesam steik
Fyrir 4
Innihald:
450 g góð steik
2 msk ristuð sesamfræ
1 msk sesamolía
2 msk matarolía
115 g litlir sveppir, skornir í fernt
1 stór græn paprika, skorin í strimla
4 vorlaukar, saxaðir
Marineringin:
2 tsk maísmjöl
2 msk þurrt sérrí
1 msk sítrónusafi
1 msk sojasósa
Skvetta af tabasco sósu
2,5 cm engiferrót, rifin
1 marinn hvítlauksgeiri
Steikin er skorin í þunna strimla og sett í marineringu í 3-4 tíma í kæli. Olíurnar eru hitaðar á pönnu og kjötið er steikt og tekið af pönnunni. Sveppir og paprika er steikt í 3 mín, þá er vorlauki bætt við í 1 mínútu. Steikin fer aftur á pönnuna með marineringunni og hituð í 2 mínútur. Þá er sesamfræjum bætt útá.
Borið fram með hrísgrjónum
Special Chow Mein – fyrir 4-6
Innihald:
3 msk olía
2 hvítlauksgeirar, sneiddir
1 tsk söxuð fersk engiferrót
2 rauðir chilli, sacaðir
75 g chorizo eða söxuð skinka/salami
1 kjúklingabringa, í þunnum sneiðum
16 hráar tígrisrækjur, hreinsaðar
115 g grænar baunir
225 g baunaspýrur
50 g vorlaukur, saxaður
450 g soðnar eggja/hrísgrjónanúðlur
2 msk sojasósa
1 msk ostrusósa
Salt og nýmulinn svartur pipar
1 msk sesamolía
1 msk kóreanderlauf til að strá yfir
Aðferð:
Hvítlaukur, engifer og chilli steikt á pönnu og svo er pylsunni, kjúklingnum, rækjunum og baununum bætt við og steikt þar til kjúklingur og rækjur eru eldaðar, ca 2 mín. Þá er þetta sett í skál og restin af olíunni er hituð og baunaspýrur og vorlaukur er eldaður í 2 mínútur. Þá fara núðlurnar saman við ásamt sósunum, salti og pipar. Rækjublöndunni er þá bætt útí ásamt sesamolíu og rétturinn borinn fram.
Brokkolí í ostrusósu – fyrir 4
Innihald:
450 g brokkolí
3-4 msk olía
½ tsk salt
½ tsk ljósbrúnn sykur
2-3 msk soð eða vatn
2 msk ostrusósa
Aðferð:
Brokkolí er skorið í bita. Brokkolí og salt fer saman á heita pönnu ásamt olíunni og eldað þar til brokkolíið mýkist. Sykri og soði er bætt við í 1 mín. Þá er ostrusóunni bætt við og allt er hrært vel saman
Kókoskjúklingur frá Hong Kong – fyrir 4
Innihald:
400-500 g beinlaus kjúklingalæri skorin í bita
150 g langar grænar baunir, saxaðar
5 msk kókosmjöl
1 msk svört sinnepsfræ
2 msk þurrkuð karrýlauf (eða rifinn limebörkur)
3 hvítlauksgeirar
1 tsk salt
1-2 litlir grænir chilli
1 tsk turmerik
Marinering:
1 msk sykur
1 msk olía
1 msk sojasósa
Svartur pipar
Aðferð:
Kjúklingur er marineraður í amk klukkutíma. Hvítlaukur, chilli, salt og turmerik er maukað saman í morteli. Olían er hituð og karrýlauf og sinnepsfræ eru hituð á meðalhita. Ofaní fer kjúklingurinn og er eldaður þar til hann er tilbúinn. Út í það fara grænu baunirnar og maukið úr mortelinu. Þá er slökkt undir pönnunni og kókosmjölinu er bætt ofaná.
Á páskadag er venja að hafa lambakjöt og ekkert land betra að heimsækja fyrir slíka veislu en Frakkland. Lambalærið var kryddað kvöldið áður með fersku kryddjurtasmjöri og var sérlega gott. Franska kakan sem var í eftirrétt fannst á samfélagsmiðlum hljómsveitarinnar Madame Monsieur, en þetta er fjölskylduuppskrift frá þeim.
Frönsk páskaveisla – Gigot au beurre d‘herbes – fyrir 8 manns
Innihald:
2 kg lambalæri
1 lúka steinselja
1 lúka rósmarín
1 lúka timian
4 hvítlauksgeirar
200 g smjör
1 skallot laukur
2 msk ólífuolía
Salt og pipar
Salt og pipar á lambið sjálft
Kvöldið áður en lambið er borið fram er lambið marinerað. Lambið sjálft er hreinsað og stimpillinn er skorinn af (ákveðið smekksatriði). Lambið er kryddað með salti og pipar. Í matvinnsluvél er öllu blandað saman þangað til að blandan er græn og væn. Marineringunni er makað á lambið og svo er það geymt í kæli yfir nótt. Lambið er eldað þar til það er fulleldað, við stilltum ofninn á 180°C og elduðum það í 1 ½ -2 klst eða þar til kjarnhiti var 70°
Pommes Anna – fyrir 8
Innihald:
6 bökunarkartöflur, skornar í þunnar sneiðar
Lúka af steinselju
Lúka af rósmarín
Lúka af timian
150 g smjör
1 tsk salt
2 msk ólífuolíuolía
Pipar
Salt aukalega
Aðferð:
Kryddsmjör er búið til með því að blanda öllu saman í matvinnsluvél. Setjið kryddsmjörið svo í örbylgjuofn til að bræða það. Kökuform er smurt með kryddsmjörinu. Stærð formsins fer eftir því fyrir hversu marga maturinn er og hversu margar kartöflur þið eruð með. Þegar kartöflurnar hafa verið skornar í þunnar sneiðar eru þær þerraðar með viskastykki. Því næst er þeim raðað í hring eftir forminu. Ekki má gleyma að setja kartöflur eftir brúninni á forminu. Eftir hverja umferð/hæð af kartöflum eru þær penslaðar með kryddsmjörinu og salti er stráð yfir hverja hæð. Þessu er haldið áfram þar til formið er fullt.
Kartöflurnar eru bakaðar í 30-40 mínútur eða þar til þær eru bakaðar. Smjörið er mjög heitt þegar þær koma úr ofninum þannig að ágætt er að bíða í 5 mínútur þar til forminu er hvolft til að setja þær á disk.
Besta sveppasósan:
Innihald:
250 g ferskir sveppir
50 g þurrkaðir sveppir, bleyttir með sjóðandi vatni
500 ml rjómi
Heill piparostur
½ dós af rjómaosti með svörtum pipar
Salt
Aðferð:
Sveppirnir, bæði fersku og þurrkuðu eru skornir gróflega og settir í matvinnsluvél. Soðið af þurrkuðu sveppunum er sett til hliðar. Þegar sveppirnir eru orðnir að duxelle eru þeir steiktir uppúr 1 tsk af smjöri þar til þeir eru eldaðir. Þegar sveppirnir eru eldaðir er öllu soðinu bætt við sveppina og er látið sjóða niður með sveppunum í 15-20 mínútur, því lengur því betra bragð. Á meðan soðið og sveppirnir malla er piparostur rifinn. Rjóma, piparosti og rjómaostinum er bætt við og piparosturinn og rjómaosturinn látinn bráðna. Sósan er svo smökkuð til með salti.
Asperges avec jambon cru – fyrir 8
Innihald:
16 aspasstönglar
16 sneiðar af hráskinku
smjör
Aspas er vafinn uppúr skinkunni. Smjör er hitað á pönnu og aspasinn er smjörsteiktur uppúr meðalháum hita þar til aspasinn er mjúkur í gegn.
Við lukum ferðalaginu okkar á annan í páskum með einstaklega góðum kjúklingarétti frá Suður-Afríku. Hann var soðinn í potti í jólalegustu kryddblöndu sem hægt er að hugsa sér og bragðaðist jafnvel betur en ilmurinn gaf til kynna.
Pottsteiktur kjúklingur með döðlum – fyrir 4 mjög svanga
Innihald:
1 stór kjúklingur
salt og pipar
smjör
olía
1 fínsaxaður laukur
1 kanilstöng
6 negulnaglar
1 tsk turmerik
125 ml kjúklingasoð
125 ml þurrt sérrí
2 msk hunang
1 msk sítrónusafi
1 msk dijon sinnep
2 marðir hvítlauksgeirar
1 tsk af rifni engiferrót
200 g steinlausar döðlur
Fínrifinn börkur af appelsínu
Aðferð:
Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur uppúr smjöri bara þangað til að hann brúnast á öllum hliðum. Kjúklingurinn er þá tekinn úr pottinum. Laukur er steiktur uppúr smjörinu sem kjúklingurinn var steiktur uppúr. Þá er öllu nema döðlum og appelsínuberki bætt við laukinn og hrært saman í uþb 2 mínútur. Þá er kjúklingnum bætt útí pottinn, hlemmurinn settur á í 30 mínútur. Eftir 30 mínútur er appelsínuberkinum og döðlunum bætt útí og kjúklingurinn er eldaður í 30 mínútur í viðbót. Þá er kjúklingurinn færður á disk og er borinn fram með hrísgrjónum
Framboiser léger d‘Emilie
Fyrir 8
Innihald:
Botn og toppur:
100 g möndlumjöl
3 eggjahvítur
20 g sykur
70 g flórsykur
20 g hveiti
1 saltklípa
Fyllingin:
400 g Philadelphia rjómaostur
60 g sykur
4 dl rjómi
15 g vanillusykur
4 matarlímsblöð
200 g hindber
Aðferð fyrir botn: (ágætt að gera hann kvöldinu áður)
Hitið ofninn á 170°C. Stífþeytið eggjahvítur með venjulegum sykri og smá salti. Hrærið flórsykri svo varlega saman við eggahvíturnar. Bætið einnig möndlumjöli og hveiti varlega saman við. Skiptið blöndunni í tvö smjörpappírsklædd 20 cm form og bakið í ofni í 20 mínútur. Blandan á að vera þunn eða ca 2 cm í forminu, ekki mikið þykkri. Látið kólna yfir nótt.
Aðferð fyrir fyllingu: (ágætt að gera um morguninn samdægurs því fyllingin þarf að stífna)
Setjið matarlím í kalt vatn og leyfið því að mýkjast í skál. Skolið og þurrkið hindberin. Hrærið saman rjómaostinum, sykrinum og vanillusykrinum í hrærivél og leggjið svo til hliðar. Þeytið rjómann vel og leggið einnig til hliðar. Vindið matarlímið og setjið í skál ásamt 2 msk af rjómaostablöndunni og setjið í örbylgjuofn til þess að bræða matarlímið. Bætið þá matarlíminu útí rjómaostablönduna. Bætið einnig þeytta rjómanum smát og smátt saman við rjómaostablönduna
Samsetning; (fer fram á sama tíma og fyllingin er búin til)
Setjið helming rjómablöndunnar á annan kökubotninn. Raðið hindberjum á allan botninn. Bætið hinum helmingi blöndunnar við og setjið svo seinni botninn á. Kakan er látin í kæli í 10-12 klst þar til hún er borin fram.
STÖÐVARFJÖRÐUR (Kristjana er Stöðfirðingur) — REYÐARFJÖRÐUR (Páll er Reyðfirðingur) — FRAKKLAND — SPÁNN — INDLAND — ÍTALÍA —
— HEIMSREISUMATARFERÐ Í ELDHÚSINU —
.