Giljaböðin á Húsafelli. Við fórum í algjöra ævintýraferð stutt frá Húsafelli um ævintýralandið í Hringsgili með Þórunni Reykdal, bráðhressum og hispurslausum leiðsögumanni, sem fræddi okkur m.a. um endurnýjanlega orku, en hótelið á Húsafelli hefur nú fengið vottun National Geographic sem sjálfbært hótel, því að það er sjálfbært um kalt og heitt vatn og orku. – PANTA Í GILJABÖÐIN –
Laugarnar eru hlaðnar í anda Snorralaugar í Reykholti, af þeim mikla hagleiksmanni Unnsteini Elíassyni frá Ferjubakka. Slökunin er alger í gilinu sem tekur utan um mann eins og verndandi faðmur í heitu vatninu. Aðalpottarnir tveir eru mismunandi heitir, en svo er hægt að setjast í volgan bolla neðar í ánni og sjóbaðsfólk getur að lagst í kalda ána.
Farið er frá Þjónustumiðstöðinni á Húsafelli, en þar er hægt að panta ferðirnar og komast 16 manns í hverja ferð. Möguleiki er þó að panta fyrir stærri hóp, sem kemur saman, t.d. í afmælisævintýri og hafa þá með sér nesti, setjast á grasið með pylsur, osta, ólífur, rauðvín, eða það sem hverjum og einum dettur í hug. Skilyrði er þó að taka allt með sér til baka.
Enda eru búningsklefar og öll aðstaða snyrtileg og til fyrirmyndar, en þeir eru byggðir úr timbri sem féll til á svæðinu og m.a.s. eru hankarnir úr skeifum frá nærliggjandi bæjum.
— GILJABÖÐIN — HÚSAFELL — FERÐAST UM ÍSLAND —
🇮🇸