Safarík kókoskaka með appelsínukeim
Vilborg systir mín bakaði í safaríka kókosköku með appelsínukeim. Kaka sem vel má mæla með, hún er án gríns safarík. Við Gunna Stína fréttum af kökubakstrinum og buðum okkur í kaffi #baraeinsogmaðurgerir
— VILBORG — APPELSÍNUTERTUR — VÍNARBRAUÐ — GUNNA STÍNA —
.
Uppskrift (einn botn):
Safarík kókoskaka með appelsínukeim
100 g smjör/smjörlíki
2 egg
1 ½ dl sykur
rifinn börkur af 1 appelsínu
3 msk appelsínusafi
2 ½ dl kókosmjöl
¾ dl hveiti
1 tsk lyftiduft
Ofn stilltur á 170°C.
Smjör/smjörlíki brætt og látið kólna. Egg og sykur þeytt létt og ljóst. Appelsínan skoluð vel og burstuð áður en börkurinn er rifinn (ath að skilja þetta hvíta eftir). Blandið saman kókosmjöli, hveiti og lyftidufti og setjið saman við eggjasoppuna, ásamt rifnum berki, appelsínusafa og brædda smjörinu/smjörlíkinu. Hrært vel saman og sett í kringlótt form ca 24 cm. Best er að nota form með lausum kanti.
Kakan er bökuð í neðri hluta (næsta rim fyrir neðan miðju) ofnsins í u.þ.b. 30 mínútur.
Þessi kaka getur bæði verið hversdagskaka, einfaldur botn með glassúr (1 dl flórsykur, 1 tsk kakó, 2 msk appelsínusafi) eða sunnudagsútgáfa með tveimur botnum og t.d. rjómaostakremi á milli og ofaná.
Krem:
250-300 g hreinn rjómaostur
ca 400 g flórsykur
safi úr einni sítrónu
vanilludropar
Byrjið á að hræra rjómaostinn mjúkan, bætið svo flórsykrinum við í smáslöttum, sítrónusafinn og droparnir settir í að lokum. Smakkið til. Skreytið að vild.
–
— VILBORG — APPELSÍNUTERTUR — VÍNARBRAUÐ — GUNNA STÍNA —
— SAFARÍK KÓKOSKAKA MEÐ APPELSÍNUKEIM —
–