Andrea Oddsteinsdóttir starfrækti Tískuskóla Andreu um árabil og skrifaði í blöðin um mannasiði og annað. Árið 1964 birtist þessi grein í Tímanum.
— GÖMUL RÁÐ OG HÁTTVÍSI — KURTEISI/BORÐSIÐIR — ÍSLENSKT —
.
Tökum sem dæmi þessa ankannalegu kveðju „Halló”, sem því miður er orðin svo algeng hjá ungu fólki. Þannig heilsuðust forfeður okkar aldrei. Hvers vegna ættum við þá að gera það? Þetta er ekki íslenzk kveðja. Við eigum að segja „komið þér sælir eða sælar”, þegar við þérum. Mér er spurn hvers vegna menn nota þetta tilkomulitla og stuttaralega „halló”, þar sem við eigum einhverja fallegustu kveðju, sem til er í nokkru máli, svo vitnað sé í orð Courmont, málsnillingsins fræga og Íslandsvinarins góða.
Þeir sem eru alltaf að gera sér far um að vera kumpánalegir og tilgerðarlausir hættir stundum til að gera sér of dælt við ókunnugt fólk. Ef það er rétt, að öll sönn kurteisi byggist fyrst og fremst á tillitssemi við náungann þá er mörgum hollt að muna það, að ekkert er auðveldara en að styggja menn með uppáþrengjandi elskulegheitum eða yfirþyrmandi kumpánaskap.
Enginn má skilja orð mín svo, að ég hafi eitthvað á móti hlýju viðmóti, öðru nær, en af öllu má of mikið gera. Mér finnst það t.d. full langt gengið þegar kona kemur inn í dömusamkvæmi og ávarpar viðstadda eitthvað á þessa leið:
„Halló, ég nenni ekki að hafa neinar serimoniur og heilsa ykkur öllum með handabandi”, og hlammar sér síðan niður í stólinn. Það er sjálfsögð kurteisi að heilsa hverjum og einum með handabandi (ég á ekki við kokteilboð). Það er mjög stórt atriði að kunna að haga kveðjuorðum sínum rétt og bera sig vel, þegar maður kemur í boð, af því að alltaf er horft á þann, sem kemur, og framkoman skapar manninn ekki síður en fötin.
.
— GÖMUL RÁÐ OG HÁTTVÍSI — KURTEISI/BORÐSIÐIR — ÍSLENSKT —
— FRAMKOMAN SKAPAR MANNINN EKKI SÍÐUR EN FÖTIN —
.