Steiktar gellur og Maríuterta
Stefanía Birgisdóttir er kaupkona í Bjarnabúð í Bolungarvík. Búðina, sem heitir Verslun Bjarna Eiríkssonar, rak lengi vel útgerðarmaðurinn Bjarni Eiríksson ömmubróðir minn af Viðfjarðarætt og seinna Benedikt sonur hans. Við hvetjum alla til að stoppa í Bjarnabúð þangað er gaman að koma. Þar fæst bókstaflega allt sem vantar og “ef það fæst ekki, vantar mann það ekki“, segir Stefanía sposk á svip. Nema hvað, Stefanía og Olgeir eiginmaður hennar buðu okkur í steiktar gellur. Mikið lifandis ósköp sem steiktar gellur eru góðar og Maríutertan á eftir gerði okkur alla þrjá orðlausa.
— BOLUNGARVÍK — FISKUR — FISKUR Í OFNI — TERTUR — VIÐFJARÐARÆTT —
.
Steiktar gellur
Veltið gellunum er upp úr eggi síðan upp úr hveiti með ca 1/4 hluta raspi, grófum pipar, salti, karrýi og Best á fiskinn eða annað gott krydd.
Steikið á pönnu upp úr vænni klípu af smjöri með smá olíu í ca 3 – 4 mín.
Heit sósa: 1/2 laukur látinn mýkjast í smjöri síðan er hvítlauk og chilli bætt við ég notaði 1 heilan hvítlauk og 1/4 chili, stráið karrýi yfir og pipar og salt. Loks smá vatn, 1-2 msk Mango chutny, 2 msk rjómaostur og látið malla. Sigtið.
Stefanía bar einnig Chillimæjó með gellunum: Hellmann´s og sýrður rjómi til helminga, chirracha, 1 tsk soyjasósa og smá tómatsósa.
Maríuterta, súkkulaðiterta með karamellu og pekan
Botninn
3 egg
3 dl sykur
4 msk smjör
100 g dökkt súkkulaði
1 tsk salt
1 tsk vanilludropar
1 ½ dl hveiti
Þeytið egg og sykur vel saman. Bræðið súkkulaði og smjör saman og bætið við þeyttu eggin. Blandið hveiti, vanilludropum og salti varlega saman við
Setjið í form og bakið við 180°C í 17-20 mínútur.
Karamella
4 msk smjör
1 dl púðursykur
3 msk rjómi
Setjið í pott og bræðið á vægum hita í þunna karamellu á meðan kakan bakast.
1 ½ poki pekanhnetur, brytjaðar
Kakan er tekin út og pekanhnetunum stráð yfir, og þunnri karamellunni hellt þar yfir. Setjið aftur inn í ofn og bakið í um 17 mínútur til viðbótar við 180°C.
Þá er 1 plata af dökku súkkulaði brytjuð og stráð yfir kökuna um leið og hún kemur úr ofninum. Loks er gott að setja fersk ber, t.d. jarðarber, yfir kökuna áður en hún er borin fram. Uppskriftin birtist á Vinotek.is.
.
— BOLUNGARVÍK — FISKUR — FISKUR Í OFNI — TERTUR — VIÐFJARÐARÆTT —
— STEIKTAR GELLUR OG MARÍUTERTA —
.