Ábrystir, ábrestir
Broddur eða broddmjólk kallast mjólk spendýra fyrstu dagana eftir burð. Nýr broddur er oftast blandaður til helminga með mjólk áður en hann er hleyptur í vatnsbaði og kallast þá ábrystir eða ábrestir. Broddurinn sem kemur tveim til þremur dögum eftir burð þarf ekki að þynna. Algengt er að setja kanilsykur út á ábrysti eða berjasaft. Það má alveg útbúa fleiri útgáfur.
— ÁRDÍS HULDA — EFTIRRÉTTIR — SAFT — VIÐ MATREIÐUM —
.
Í tilefni fimmtugsafmælis síns fékk Árdís systir mín kú nefnda í höfuðið á sér, kýrin heitir sem sagt Árdís nr 870 og er á bænum Læk í Flóahreppi. Hún fékk sendan brodd úr nöfnu sinni sem bar á dögunum.
Ábrystir, ábrestir
1/2 l broddur
Mjólk
Broddurinn er blandaður með mjólk áður en hann er hleyptur, stundum til helminga (1/2 l mjólk og 1/2 l broddur) en oftar minna, t.d. 1/4 l mjólk og 1/2 l broddur, eftir því hvað hann er þykkur. Hleypið (hitið) ábrystirnar í móti, potti eða skál með loki með loki í vatnsbaði. Haldið vatninu við suðu eða sjóðið í ofni við 160°C.
1 lítri af broddblöndu hleypur á 45-60 mín. Hlaupið á að vera þétt, samfellt og mjúkt þegar það er soðið og loðir ekki við hnífsblaðið sem stungið er í miðjuna.*
Ábrystir, ábrestir, ábristir, ábre(i)stur, ábrystur kv.ft. (17. öld) ‘sérstakur réttur gerður úr (hitaðri) broddmjólk’. Orðið er líkl. dregið af að bresta eða brysta (brista) um það er mjólkurhlaupið tók að bunga upp í miðju og springa; sbr. nno. bresta, d. briste ‘skiljast (um mjólk)’. Óvíst er hvort rita skal orðið með e eða i, en frábrigðilegar myndir þess gætu bent til gamallar u-st. beygingar: -brestr: bristir, brestu (nf. og þf. ft.). Aðrir telja að forliður orðsins á- sé s.o. og ær kv. ‘sauðkind’, en síðari liðurinn -brystir eigi skylt við ísl. broddur ‘broddmjólk’ og þ. máll. briestermilch (s.m.) (sem er raunar ummyndun úr biest(milch)). Vafasamt.**
**Málið.is
.
— ÁRDÍS HULDA — EFTIRRÉTTIR — SAFT — VIÐ MATREIÐUM —
.