Sveppatínsla og sveppabyggottó
„Við fórum alltaf í sveppamó á haustin í sveitinni minni í Fnjóskadal, þar sem er yfirleitt allt gult af lerkisveppum þegar best lætur. En það er ekki eins mikið af lerkiskógum í nágrenni borgarinnar svo nú eru það furu- og kóngasveppir sem rata oftast í pokann minn og þeir eru ekki síðri” segir Sunna Valgerðardóttir fréttamaður.
— SVEPPIR — BYGG — RISOTTÓ — FNJÓSKADALUR —
.
Stærstur hluti uppskerunnar fór í þurrkofninn og eitthvað fór í frystinn. Það er frábært að elda þurrkaða sveppi, þeir haldast svo vel. Muna bara að leggja þá í bað í svona klukkutíma áður en það á að elda úr þeim. Frystir virka þeir líka mjög vel.
Ég var líka svöng, og svepparísottó er eitt það besta sem ég fæ, svo það varð fyrir valinu í kvöldmatinn. Nema ég átti ekki risottógrjón, ekkert hvítvín og ekkert sellerí. Og nennti alls ekki í búðina. Svo ég sauð perlubygg upp úr kjúklingasoði, steikti sveppina upp úr smjöri með hvítlauk, steinselju og sítrónusafa. Soðnu bygginu er svo húrrað á pönnuna með smá soði, meira smjöri, fullt af parmesan, smá chilli, salt og pipar og aðeins meiri sítrónu. Þetta má svo malla í smá stund með stöðugri upphræringu og þá er komið hið fínasta hollustu-leti-rísottó. Svo parmesan yfir, jafnvel rúkóla og smá fetaostur með í skálina. Alles klar.
— SVEPPIR — BYGG — RISOTTÓ — FNJÓSKADALUR —
— SVEPPATÍNSLA OG SVEPPABYGGOTTÓ —
.