Hvað er það sem stjórnar kynhvöt karlmanna? Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur tók saman pistil um testósterón hjá karlmönnum og hvað hefur þar áhrif. Lesið vel.
.
— ELÍSABET REYNISD — GRANATEPLI — FISKUR — VATNSMELÓNA — MAKRÍLL — MAGNESÍUM — SÍLD — KYNLÍF — D VÍTAMÍN — HREYFING — LÝSI —
.
Flest okkar þekkja nafnið á kynhormóninu testósterón sem er tengt við kynhvöt hjá karlmönnum. Gildin hormónsins geta haldis óbreytt fram eftir aldri og fram á efri ár. Testósteróngildið er mismunandi hjá einstaklingum og fer eftir líkamsbyggingu, erfðum, lífsstíl og öðrum þáttum s.s. sjúkdómar og áföll geta haft áhrif. Gott er að fylgjast með líkamlegum og andlegum einkennum hjá sjálfum sér og leita til læknis ef einkennin eru farin að hafa áhrif á lífsgæðin.
Hér eru helstu einkennin skorts:
-Minni vöðvamassi
-Aukinn fitumassi (í sumum tilfellum fá karlmenn fituaukningu við brjóstin)
-Dregur úr beinþéttni
-Kyndeyfð og risvandamál
-Vægt þunglyndi
-Svefntruflanir
-Lið og vöðvaverkir
-Skapstyggð
Lífsstíll og testósterón
Rannsóknir sýna að það er hægt að hækka gildi testósteróns með því að borða ákveðnar fæðutegundir og tileinka sér góðan lífsstíl.
Áhrifavaldar
Reykingar: hafa verið tengdar við getuleysi.
Áfengi: hefur sjaldnast verið vænlegast til árangurs í rúminu, nema kannski til að slaka á spennu og streitu svona í fyrstu. Í of miklu magni getur það haft áhrif á lækkað magn testósteróns.
Hreyfingarleysi: hefur áhrif á líkamlegt heilbrigði almennt.
Þær fæðutegundir sem við höfum skoðað og hafa góð áhrif á magn hormónsins eru:
Engifer, feitur fiskur og sumar tegundir af grænmeti, granateplasafi, ostrur og bætiefni eins og D-og B- vítamín og sink og góður lífsstíll.
Engifer viðbót á hverjum degi í 3 mánuði hefur gefið góð áhrif. Getum útbúið engiferte eða bætt því sem kryddi í matinn. Einnig er hægt að kaupa engifer töflur en best er að bæta fersku engiferi inn í fæðuna sem kryddi eða útbúa góðan drykk.
Hver hefur ekki heyrt um ostrur og kynhvöt, en er það satt og af hverju?
Það sem hefur áhrif á testósterónið og framleiðslu sæðis er steinefnið sink en ostrur innihalda meira sink en nokkur önnur fæða og þar kemur samasemmerkið að ostrur skili sér beint í bættum árangri í bólinu.
Sink er einnig hægt að finna í eftirfarandi fæðu:
Aðrar tegundir af skelfisk
Rautt kjöt
Alifuglakjöt
Baunir
Hnetur.
Granatepli hefur verið þekkt í gegnum árin sem tákn um frjósemi og kynorku. Einnig er það ríkt af andoxunarefnum (náttúruleg þráavarnaefni) sem verja öldrun líkamans. Ein rannsókn sem ég skoðaði sýndi að með því að drekka hreinan Granatepla safa á hverjum degi í 14 daga þá jókst testósterónmagnið um 25 %.
Mikilvægt er að taka D vítamín sem fæðubót og sérstaklega hér á klakanum þar sem lítið er af sólarljósi megnið af árinu. Embætti Landlæknis ráðleggur að taka inn fyrir einstaklinga frá 17 – 74 ára um 600 IU á dag. Ein rannsókn sem var gerð sýndi að með því að taka í ákveðin tíma ofurmagn af D vítamíni þá jókst gildið og var inntakan um 3000 IU á dag.
Matvörur sem innihalda D vítamín
Fiskur (feitur fiskur)
Lýsi
Egg
Mjólkurvörur með viðbættu D vítamíni.
Fiskur á diskinn minn
Feitur fiskur og fiskiolía, embætti Landlæknis ráðleggur að borða fisk 2x í viku og feitan fisk allavega einu sinni í viku. Fiskur hefur mikilvæg næringarefni og góð prótein sem hjálpa til við að viðhalda heilbrigði. Mikilvægt er að borða feitan fisk allavega einu sinni í viku til að fá ómega 3 fitusýrur. Einnig er hægt að taka inn fæðubótarefnið ómega 3.
Þær matartegundir sem eru ríkar af ómega 3 fitusýrum eru:
Makríll
Síld
Lax og silungur
Magnesíum er steinefni sem sérhver fruma í líkamanum þarf á að halda og skiptir það sköpum fyrir tauga- og vöðvaslökun. Grænmeti eins og spínat og annað fagurgrænt kál er ríkt af steinefninu magnesium sem getur haft góð áhrif og hækkað magn testósteróns í líkamanum.
Það að taka magnesíum bætiefni í 4 vikur sýndi góð áhrif á hækkun magns testósteróns. Þátttakendur í rannsókninni voru heilbrigðir íþróttamenn í góðri þjálfun. Gott líkalmegt hreysti getur haft jákvæð áhrif í þeirri rannsókn sem samt sem áður sýndi hækkun með því að auka magnesíum ríkt fæði yfir daginn.
Aðrar fæðutegundir sem innihalda magnesíum eru:
Baunir og linsubaunir
Hnetur og fræ
Heilkorn
Ólífuolía (jómfrúarolía eða extra virgin olía) er tengd við Miðjarhafsmataræði og sögð hafa jákvæð áhrif á heilsuna. Tilgátur hafa verið settar fram um að olían hjálpi til við að auka magn testósteróns hjá heilbrigðum mönnum.
Svalandi millimál sem segir sex
Það getur verið þess virði að fá sér vatnsmelónu á kvöldin. Allavega ef eitthvert vandamál er með kyngetuna. Talið er að vatnsmelóna sé náttúrlegt Viagra og það sé þess virði að prófa og sannreyna það. Efni í vatnsmelónunni er citrulline eða sítrólín sem er nokkurskonar amino sýra. Efnaferli á sér stað þegar við borðum melónuna og það hjálpar til við að víkka út og slaka á æðunum sem er hlutverk lyfja eins og Viagra og samskonar lyfja sem gefin eru við risvandamálum.
Hvítlaukur og laukur getur haft jákvæð áhrif á hjarta- og æðakerfið og einnig hjálpað til við að minnka mittismálið. Einnig inniheldur laukur af flestum tegundum góð næringarefni og andoxunarefnum (þráavarnarefni). Rannsókn frá 2012 sýndi jákvæð áhrif til að auka lágt gildi af testósteróni. Rannsóknin var gerð á dýrum og var þeim gefinn ferskur lauksafi í 4 vikur og var marktæk aukning testósteróns í blóði.
Einkenni við minnkun á blóðflæði geta valdið risvandamál. Talið er að hvítlaukur og cayennepipar auki blóðflæðið og hafa menn tekið það inn sem fæðubót til að ráða bót á risvandamáli.
Allt skiptir máli í stóru samhengi ef um líkamleg vandamál er að ræða og þau síðan hafa áhrif á kynlífinu og kynlífslöngunina. Gæði samlífs er sett undir sama hatt og gott kynlíf og því er mikilvægt að leita sér ráðgjafar ef karlmenn tengja áhugaleysi við líkamleg einkenni.
Næring skiptir máli og jafnframt góður lífsstíll.
Ef um er að ræða sálrænir kvillar s.s. stress og álag þá er sálfræðimeðferð góður kostur. Leitið til læknis ef grunur leikur á að eitthvað að þeim einkennum sem hafa verið talin hér upp eru að valda vandamálum. Bara ekki gera ekki neitt því það er engin ástæða að horfa fram hjá því sem hægt er að vinna með. Skokkið svo upp allar tröppur, hæðir og hóla sem á veginum verða og njóta þess að leyfa líkamanum að pústa.
Mikilvægasta skrefið af öllu er að skoða lífsstílinn og t.d. gúffa í sig vatnsmelónu eins og enginn sé morgundagurinn ásamt því að borða hollan og góðan mat.
Bon appetit
Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur hjá Heilsuvernd
— ELÍSABET REYNISD — GRANATEPLI — FISKUR — VATNSMELÓNA — MAKRÍLL — MAGNESÍUM — SÍLD — KYNLÍF — D VÍTAMÍN — HREYFING — LÝSI —
.
–MEIRA HÉR: BETAREYNIS.IS OG BETA NORDIC VÍTAMÍN —