Jólabúðingurinn hennar mömmu
Lára Bryndís Eggertsdóttir er orgelleikari í Grafarvogskirkju. Í hennar fjölskyldu er hefð fyrir súkkulaði/kaffibúðingi á jólunum „Uppáhaldseftirréttur allra í fjölskyldunni”. Já ég skil vel að þessi feiknagóði eftirréttur sé í uppáhaldi hjá fjölskyldunni.
— JÓLIN — EFTIRRÉTTIR — BÚÐINGUR — LÁRA BRYNDÍS — GRAFARVOGSKIRKJA — ORGEL — KIRKJUR —
.
Jólabúðingurinn hennar mömmu
Eftirréttur á aðfangadag fyrir 6
3 egg
75 g sykur
6 blöð matarlím
1 dl sterkt kaffi
125 g súkkulaðispænir
4 – 5 dl þeyttur rjómi (alls ekki of mikið þeyttur)
Byrjaðu á að leggja matarlímið í bleyti í köldu vatni og hella upp á sterkt og gott kaffi – einn bolla fyrir þig og 1 dl fyrir búðinginn.
Því næst seturðu hrærivélina af stað með eggjunum og sykrinum. Meðan eggjablandan verður að léttri og ljósri froðu er tilvalið að saxa gott súkkulaði. Mér finnst suðusúkkulaði langbest en nota stundum súkkulaðispæni úr pakka með. Til að vera alveg viss um að súkkulaðið sé nógu gott skaltu fá þér einn bita með kaffibollanum. Það er líka kominn tími á að kreista vatnið úr matarlímsblöðunum og leysa þau upp í heitu kaffi.
Þegar eggjablandan er orðin vel stífþeytt og kaffi-matarlímsblandan orðin ylvolg er komið að stóra matarlímsævintýrinu. Við viljum ekki gúmmíkenndagelatíntauma í búðingnum og því þarf að vanda sig. Ég byrja alltaf á að hræra smá eggjablöndu út í kaffiblönduna áður en ég blanda öllu varlega saman með sleikju. Best er að gera það í glærri skál svo það sjáist hvort kaffiblandan safnast í botninn, en þá þarf að skafa hana varlega upp frá botninum. Geymdu skálina á köldum stað í u.þ.b. 10 mínútur meðan þú þeytir rjómann og finnur til fallega spariskál fyrir búðinginn.
Blandaðu síðan rjómanum, eggja-kaffiblöndunni og súkkulaðinu varlega saman. Ég lærði af mömmu að hella blöndunni varlega milli skála (hrærivélarskálarinnar og glerskálarinnar) og hræra innihaldinu smátt og smátt saman með sleikju meðan ég helli á milli. Að lokum hellirðu blöndunni í spariskál (ég nota alltaf „Queen-Anne“-silfurfatið sem ég erfði frá ömmu) og geymir í kæli þar til búið er að taka upp jólagjafirnar. Ath. það er alveg óhætt að gera búðinginn daginn áður ef það skyldi nú vera mikið að gera á aðfangadag!
Kveðja, Lára Bryndís
P.s. uppskriftin er fyrir 6, en ég geri alltaf tvöfalda uppskrift því það er ómögulegt annað en að eiga afgang daginn eftir.
— JÓLIN — EFTIRRÉTTIR — BÚÐINGUR — LÁRA BRYNDÍS — GRAFARVOGSKIRKJA — ORGEL — KIRKJUR —
.