Ítölsk veisla á Apótekinu
Það er eitthvað útlandalegt við að fara á Apótekið í þessari glæsilegu byggingu og flotta umhverfi. Í þetta skiptið var eins og að renna sér inn í himnaríki, því að úti fyrir var yfirmáta leiðinlegt veður og ferðamennirnir í bænum voru greinilega sama sinnis. Smám saman fylltist salurinn og við sem héldum að við yrðum alveg út af fyrir okkur í veðrinu.
Við vorum svo heppin að í boði var ítölsk veisla til laugardags. Matteo Cameli var kominn í heimsókn, en við höfðum einmitt verið í stórkostlegri veislu sem bróðir hans, Massimo sá um, fyrir sex árum. Þessi sex rétta matseðill er frábærlega samansettur og máltíðin kostar ekki nema 12,900 kall, það er ótrúlega gott verð fyrir það sem í boði er. Okkar allra besta uppáhalds Marsibil sonardóttur okkar sagði reyndar að þetta væri í mesta lagi fyrir sinn netta maga, en hún er einstaklega skemmtilegur félagi til að fara með á veitingastað.
Bræðurnir Matteo og Massimo eiga veitingastaðinn Al Vecchio Convento í 400 manna þorpi, Portico di Romagna, sem er á milli Flórens og Bologna. Við hittum Matteo sem er einstaklega viðkunnanlegur. Bræðurnir sækja mikið hráefni í nærumhverfinu, t.d. trufflur, jurtir og sveppi í skóginum. Matteo smyglaði alveg helling í flugvélinni, nei djók, hann tók bara það sem var leyfilegt og það var margt. T.d. sýndi hann okkur 2 gerðir af trufflum sem hann hafði týnt, annan ljósan og hinn svartan.
— APÓTEKIÐ — ÍSLAND — VEITINGASTAÐIR — ÍTALÍA —
.
— APÓTEKIÐ — ÍSLAND — VEITINGASTAÐIR — ÍTALÍA —
..