
Carnivore mataræði – matur læknar
Sveinn V. Björgvinsson setti inn á Carnivore Tribe hópinn á fasbókinni eftirfarandi sögu sem hér birtist með góðfúslegu leyfi hans. Eftir þrjá og hálfan mánuð á Carnivore mataræði gerðist margt gott eins og sjá má hér að neðan:
— MATUR LÆKNAR — KJÖT —
.
Góðan daginn.
Ég hef verið beðin að deila þessari reynslu með ykkur. Vonandi gagnast það einhverjum á einhvern máta. Eiginkona mín hefur svo aðra sögu að segja og munum við pósta henni hérna í kjölfarið.
Í apríl 2024 var ég 114 Kg (stundum þyngri). Ég var með áunna sykursýki, týpu 2 sem sagt, og var á sykurtöflum og Ozempic, léttist ekki neitt. Ég var á blóðfitulyfjum, kvíðalyfjum, og átti svo sterk kvíðalyf þegar mikið lá við. Testosteron í mér í lágmarki. Ég vaknaði alltaf, þ.e. þegar ég náði að sofa, þurr í munni vegna þess að ég hraut meira en gott þykir og þurfti helst að sofa í öðru rými en hjónaherberginu svona til þess að frúin gæti sofið í friði. Orkulaus alla daga. Liðverkir að ganga frá mér. Allskonar önnur líkamleg óþægindi. Lítið úthald í vinnu, starfa sem málari, alltaf þreyttur.
Einn morguninn í apríl opnaði ég lyfjaskúffuna mína og fékk nóg. 48 ára, á þrjú börn… þetta gekk ekki. Ég tók ákvörðun þarna að prófa „Carnivore“ mataræði. Þremur vikum seinna horfði frúin á mig og sagði „ég ætla að gera þetta líka“. Fyrstu ca. 5 mánuðina var ég það sem mætti kallast „strict Carnivore“ þ.e. borðaði bara kjöt, fisk, egg og smjör, og notaði einnig hamsatólg til að elda upp úr. Í dag er ég ca. 90%, ég fæ mér af og til eitthvað sem ég hef ekkert með að gera, en lítur vel út á diski 😊Ég drekk líka ósykraða gosdrykki og bjór/vín þegar mig langar til þess.
Það vildi svo til að ég fór í blóðprufu skömmu áður en ég tók þessa ákvörðun. Ég fór svo aftur í blóðprufu þremur og hálfum mánuði seinna.
Á þessum þremur og hálfa mánuði þá gerðist þetta:
1. Hættur á blóðfitulyfjum.
2. Sykursýki 2 horfin, lyfin í tunnuna.
3. Hættur á kvíðalyfjunum (ég á samt nokkrar sterkar þegar mikið liggur við til öryggis)
4. Hættur að hrjóta
5. 20Kg (sturlaður léttir)
6. Liðverkir hurfu
7. Testosteron fór úr 12 í 18 (og sálin maður!!)
8. Fatastærð, ja, fullur ruslapoki af fötum í tunnuna, úr tæplega 3xl skyrtum í L aðþrengdum. Buxnastærð úr 46 í 32.
9. Laus við mikla flösu og roða í hársverði
10. Laus við excem á bringunni
11. Uppþemda svo gott sem horfin. Kemur ef ég fæ mér grænmeti eða brauð með matnum.
Í dag er ég að meðaltali um 84 Kg, sem eru 30 kg niður frá því ég byrjaði. Ég get unnið endalaust, ég sef flestar nætur, ég er miklu betri í skapinu og bara allskonar fínerí.
Ég vona að þessar upplýsingar gagnist einhverjum.
Ég er ekki að selja neitt eða reyna að koma einhverjum í eitthvað prógram, bara að leggja til málanna 😊
— MATUR LÆKNAR — KJÖT —
.