
Prag – matarborg með sögu
Við dvöldum nokkra daga í Prag með stórum hópi tónlistarkennara í fræðslu- og endurmenntunarferð sem Arndís Björk Ásgeirsdóttir píanóleikari og Prag dama skipulagði af miklum myndarskap. Borgin kemur endalaust á óvart – litrík, lífleg og full af menningu, mat og tónlist. Vel er hægt að mæla með henni. Ár hvert koma rúmlega átta milljónir ferðamanna til Prag, og auðvelt að skilja hvers vegna.
Mozart naut lífsins í Prag, sagt er að hann hafi verið veikur fyrir sætabrauði, súkkulaði og eftirréttum. Sérstaklega þó marzipani, epla-strudel og súkkulaðidrykkjum sem voru í tísku á 18. öld. Víst er að hér eru góðir veitingastaðir á hverju strái, allt frá því að kíkja inn á tékknesku staðina og fá sér þjóðlega rétti til Tælendinga, Ítala o.s.frv.
Þess má til gamans geta að Mozartkúlurnar (Mozartkugeln) er tiltölulega „ung” uppfinning – þær voru fyrst búnar til í Salzburg árið 1890, löngu eftir daga meistarans.
Í Prag samdi Mozart og frumsýndi óperuna Don Giovanni í Estates-leikhúsinu (Stavovské divadlo) í október 1787 – einu elsta og fegursta leikhúsi Evrópu. Við sáum reyndar Brúðkaup Fígarós þar, en það er tilhugsun með gæsahúð að hugsa til þess að Mozart skuli hafa staðið þar á stjórnandapallinum og leikhúsið hefur ekki breyst síðan þá.
Í Michelin Guide Czechia 2025 eru tveir veitingastaðir í Tékklandi með Michelin-stjörnu, báðir í Prag: La Degustation Bohême Bourgeoise og Field. Auk þess má finna fjölda spennandi staða með viðurkenninguna Bib Gourmand – þar sem framreiddur er framúrskarandi matur á hóflegu verði.
— PRAG — TÉKKLAND — MATARBORGIR — AFTERNOON TEA — MOZART —
.










— PRAG — TÉKKLAND — MATARBORGIR — AFTERNOON TEA — MOZART —
.

