RABARBARAPÆ Alberts
Eitt vinsælasta kaffimeðlæti síðustu ára hefur verið rabarbarapæ, öll árin sem ég rak sumarkaffihús á Fáskrúðsfirði var boðið uppá pæið við miklar vinsældir. Var svo þreyttur á að skrifa uppskriftina upp fyrir gesti að ég lét prenta hana á kort, bæði á íslensku og frönsku, eins og hér má sjá fyrir neðan. Nú vorar og rabarbarinn farinn að vaxa, því er upplagt að bjóða sumarið velkomið með því að skella í pæ. Sjálfur er ég ekki hrifinn af að nota frosinn rabarbara og baka því aðeins pæið á meðan rabarbarinn vex.
Ef komið er fram í ágúst er gott að strá 1 msk af sykri yfir rabarbarann í forminu og láta bíða í nokkrar mínútur áður en deigið er látið yfir. Rabarbari verður súrari eftir því sem á sumarið líður.
G.K: „Svona eiga uppskriftir að vera: einfaldar og fljótlegar m. tilbrigðum -og bragðgóðar“
.
— RABARBARI — FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR — FRANSKIR SJÓMENN — BESTU RABARBARAUPPSKRIFTIRNAR —
.
RABARBARAPÆ Alberts
Rabarbari ca 4-5 leggir
200 g smjör
2 dl sykur
1 tsk lyftiduft
2 dl hveiti
1 tsk vanilla eða vanillusykur
2 egg
Skolið rabarbarann og hreinsið, brytjið í 1-2 cm þykkar sneiðar. Setjið í eldfast form, vel botnfylli eða að vild.
Bræðið smjör í potti, bætið útí þurrefnunum og loks eggjunum. Blandið vel saman. Hellið deiginu yfir rabarbarann. Bakið við 170 ° í 25-30 mín eða þangað til pæið er orðið gulleitt að ofan. Berið fram með rjóma eða ís.
-Gott er að setja kókósmjöl, engifer eða kanil til tilbreytingar.
-Vel má minnka smjörið um helming og nota (kókos)olíu á móti.
ENDILEGA DEILIÐ ÞESSARI FRÁBÆRU UPPSKRIFT SVO FLEIRI FÁI NOTIÐ 🙂
🇫🇷
Líka á frönsku – þið megið gjarnan láta Frakka vita af þessu
🇫🇷 🇮🇸
— RABARBARI — FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR — FRANSKIR SJÓMENN — BESTU RABARBARAUPPSKRIFTIRNAR —